Kaffi bætir og kætir
Ég byrjaði að drekka kaffi þegar ég var 25 ára gömul. Kannski vegna þess að það var orðið frekar hallærislegt að afþakka kaffið í heimsóknum, sérstaklega hjá gömlum frænkum sem án undantekningar kölluðu mig kettling eða kálf þegar mjólkurglasið var sett fyrir framan mig. Ég kiknaði að lokum undan álaginu sem fylgdi þeirri skömm að teljast fullorðin en drekka ekki kaffi. Ég sé reyndar ekki eftir því, enda er kaffi eitt af mínum aðal áhugamálum í dag og mér finnst fátt jafnast á við góðan kaffibolla.
Því miður, þá hefur það gerst með aldrinum að ég get ekki drukkið eins mikið af kaffi og ég gerði áður, annars er nætursvefninn úti. Kannski einhverjir fleiri sem kannast við það. Rannsóknir hafa svo sem sýnt að heilsufarslega er best að drekka bara tvo góða kaffibolla yfir daginn og njóta, enda er víst flest best í hófi. Að halda sig bara við tvo bolla á dag er hinsvegar kúnst út af fyrir sig og oftar en ekki verða þeir ögn fleiri hjá flestu kaffidrykkjufólki – allavega hjá þeim sem ég þekki.
Þessi eðaldrykkur á sér langa sögu. Hér á Íslandi er talið að kaffið hafi komið frá Kaupmannahöfn með Árna Magnússyni, prófessor og handritssafnara, í upphafi átjándu aldar. Þá þótti þessi drykkur svo fínn að hann var aðeins á borðum heldra fólks, svo sem embættismanna, presta og sýslumanna og þá aðeins á sunnudögum. Það var ekki fyrr en um miðja nítjándu öld sem kaffið var orðið landlægt og ekki lengur munaður heldur nauðsyn á hverju heimili. Það var reyndar oft drýgt á ýmsan hátt, til dæmis með því að blanda við það rúgi, brauðskorpum eða kúmeni, sem var þá malað með baununum í kvörninni og síðan hellt upp á. Ekki þótti verra ef brennivínsdropa var laumað í sopann.
Jenný M. Henriksen
Í dag er varla til það heimili sem ekki býr yfir einhvers konar uppáhelligræju og ekki sá vinnustaður þar sem kaffivélin sameinar ekki fólk. Ég hef unnið á nokkrum kaffihúsum og kynnst misjöfnum vinnubrögðum. Ég hef líka séð hvað kaffimenningin hefur breyst í gegnum tíðina. Á fyrsta kaffihúsinu sem ég vann á, undir lok síðustu aldar, þá var lítið lagt upp úr því að ná fram bragðpallettunni sem býr í kaffinu, réttu hitastigi eða mýkt í mjólkina. Kaffið átti bara að vera heitt og sterkt og þá voru allir sáttir. Eftir aldamótin vann ég svo á kaffihúsi þar sem ég var látin hella hverjum bollanum á fætur öðrum í vaskinn ef hitastigið var ekki rétt eða froðan ekki falleg.
Nokkrum árum síðar vann ég á kaffihúsi Te og Kaffi sem var í Pennanum hér á Akureyri, sællar minningar, og fékk þá tækifæri til að fara á kaffibarþjóna námskeið á vegum SCAE (Speciality Coffee Association Europe), meðal annars. Ég var líka svo heppin að fá að kenna kaffigerð á hinum ýmsu stöðum hér á Norðurlandi á vegum Te og Kaffi, sem var ótrúlega skemmtileg lífsreynsla. Ég hef því komið ansi víða við og reynt ýmislegt þegar kemur að kaffi en stærsta lexían er kannski sú að það er nauðsynlegt að vera með opinn huga í þessu, sem og svo mörgu öðru. Kaffimenningin breytist rosalega hratt og það eru alltaf að koma fram nýr fróðleikur og nýjar aðferðir við að gera kaffið ennþá betra. Stöðnun á því ekki við þegar kemur að kaffi en þó eru ennþá einhverjir sem drekka kaffið sitt bara “svona” og eru ekki tilbúnir að breyta út af vananum. Það er þeirra missir.
Samstarfskona mín á einu kaffihúsinu sem ég vann á hafði unnið lengi sem kennari og hún var með þá kenningu að fúllyndi margra kennara í starfi, og mögulega á fleiri vinnustöðum, væri tilkomið af því að þeir voru ekki að drekka gæðakaffi á kennarastofunni, kaffi væri nefnilega ekki bara kaffi. Ég hef ekki sannreynt þessa kenningu hennar um fúllyndi fólks á vinnustöðum en ég hef þó lært á þessum tuttugu árum síðan ég byrjaði að stúdera kaffigerð að kaffi er svo sannarlega ekki bara kaffi. Gæðin eru misjöfn en alla jafna er ekki vinsælt að hafa sunnangolu í sopanum (þýðing: lapþunnt kaffi).
Við íslendingar erum reyndar merkileg fyrir þær sakir að hingað til lands er nánast eingöngu flutt inn kaffi í A flokki, enda erum við kröfuhörð þjóð. Það hefur líka sýnt sig í því að síðustu ár hefur kaffimenning landans breyst. Fólk er farið að leggja meiri metnað í kaffigerðina og gera meiri kröfur um bragð, útlit og upplifunina sem fylgir því að drekka gott kaffi, hvort sem er á kaffihúsum landsins eða heima í eldhúsi. Landinn er að læra það sem mín fyrrverandi samstarfskona uppgötvaði fyrir löngu, að kaffi er ekki bara kaffi. Ekki skemmir heldur að kaffi hefur ótrúleg samfélagsleg áhrif og virðist fátt sem ekki er hægt að bæta með góðum kaffisopa. Kaffi sameinar fólk.
Sem fyrrum kaffibarþjónn þá get með sanni sagt að það er ótrúleg fullnægja sem fylgir því að stilla kvörnina þannig að espressoinn nái góðri fyllingu og detti mjúklega í bollann, ná mjólkinni flauelsmjúkri þannig að hún blandist fullkomlega við espressoinn og sjá ánægjusvipinn á andliti fólks þegar það sýpur á bollanum sínum, hvort sem það er latte, cappuccino eða espresso, hvort sem kaffið er bragðbætt með sírópi, blandað með kakó eða toppað með rjóma, hvort sem það er heitt eða kalt.
Ég held að flestir séu mér sammála um það að það er ákveðin upplifun að drekka gott kaffi. Upplifun sem vert er að njóta; í góðra vina hópi, á kaffistofunni með vinnufélögunum, í matarboðinu hjá mömmu eða bara einn með sjálfum sér.