KA áfrýjar

KA áfrýjar
KA áfrýjar

Yfirlýsing Knattspyrnudeildar KA vegna dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum þann 14. maí sl.

Þann 14. maí sl. kvað Héraðsdómur Norðurlands eystra upp dóm í máli Arnars Grétarssonar gegn Knattspyrnufélagi Akureyrar (KA). Málið var höfðað til innheimtu bónusgreiðslna sem Arnar taldi sig eiga rétt á úr hendi KA. Um var að ræða bónusgreiðslur sem eiga rót sína að rekja til árangurs KA í Evrópukeppni sumarið 2023 en á þeim tíma var Arnar þjálfari Vals. Ágreiningur málsins lýtur einkum að túlkun á einni grein samnings aðila hvar fjallað er um bónusgreiðslur vegna þátttöku KA í Evrópukeppni og greinir aðila á um túlkun greinarinnar.

Héraðsdómur féllst á kröfur Arnars og hefur KA nú ákveðið að áfrýja málinu til Landsréttar. KA fellir sig ekki við þá túlkun sem dómurinn er byggður á og telur mikilvægt að fá úr því skorið, ekki bara fyrir KA heldur önnur íþróttafélög og atvinnulífið almennt, hvort starfsfólk geti átt kröfu til greiðslna eftir að ráðningarsamband viðkomandi starfsmanns og atvinnurekanda hefur runnið sitt skeið á enda, einkum og sér í lagi þegar kröfurnar tengjast árangri sem viðkomandi starfsmaður átti ekki þátt í. Bent er á að Arnar Grétarsson ákvað einhliða að semja við annað lið áður en samningur hans við KA rann út en á þeim tímapunkti var KA ekki búið að tryggja sæti sitt í Evrópukeppni. Að mati KA geta starfsmenn ekki átt heimtingu á greiðslum eftir að ráðningarsambandi lýkur og þá vegna atvika sem til koma eftir það tímamark og verður sem fyrr segir látið á þetta reyna fyrir Landsrétti.

Frá þessu segir á heimasíðu KA 

Nýjast