Jón Gnarr snýr aftur í Samkomuhúsið á Akureyri

Jón Gnarr snýr aftur í Samkomuhúsið til að taka þátt í uppsetningu á verkinu And Björk, of course eftir Þorvald Þorsteinsson sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í febrúar 2024.

„Þetta er magnað leikverk og persónulega mér mjög að skapi þar sem það er svolítið svipað mínum eigin stíl sem leikskálds. Mér finnst þessi nálgun og stíll mjög fyndinn en líka mjög erfiður því það er verið að fjalla um alvarleg mál á kjánalegan hátt og það skapar einhver óþægindi sem mér finnst ofboðslega skemmtilegt,“ segir Jón Gnarr.

Leikritið And Björk, of course eftir Þorvald er nærgöngult og hrollvekjandi háðsádeila þar sem merkingarleysi nútímans er lýst án miskunnar. Verkið er í senn sprenghlægilegt, óviðeigandi og óþægilegt og fjallar um sjálfsmynd okkar og hinn eilífa vanmátt manneskjunnar í að mæta sjálfri sér eða taka ábyrgð á lífi sínu.

Fleiri leikarar eru Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi), Eygló Hilmarsdóttir, Arna Magnea Danks, Davíð Þór Katrínaron, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Leikstjóri er Gréta Kristín Ómarsdóttir en um leikmynd og búninga sér Brynja Björnsdóttir. Ljósashönnun er í höndum Ólafs Ágústs Stefánssonar en tónlistin í höndum Axels Inga Árnasonar og Péturs Karls Heiðarssonar. Gunnar Sigurbjörnsson sér um hljóð.

 

Nýjast