Jólavæntingar

Inga Dagný Eydal skrifar
Inga Dagný Eydal skrifar

Við eigum flest mynd af fullkomnum jólum í hugskoti okkar. Myndir sem ef til vill eiga uppruna sinn í bernskujólunum sem oft eru sveipuð töfrum í huganum, og því meira eftir því sem við eldumst. Og ef ekki þar, þá í flestum jólamyndum, jólabókum, jólasöngvum og jólaauglýsingum sem reka á fjörur okkar. Við sjáum fyrir okkur dásamlegar stundir með fjölskyldu og vinum í kringum stórt borð í stofunni á fallega skreyttu heimili og gjarnan með arineld í bakgrunni. Úti snjóar að sjálfsögðu því jólin þurfa að vera hvít. Á smekklega skreyttu borðinu er jólamatur, allt ljúffengt og vel útilátið. Allir eru klæddir í sitt besta skart og njóta matarins. Eftir máltíðina safnast allir saman við fullkomið jólatré og skiptast á yndislegum gjöfum og skemmtilegum samræðum.

En þessi fallega mynd passar ekki endilega inn í raunveruleikann. Lífið býður einfaldlega ekki upp á allt sem til þarf í uppskriftina, það getur skort bæði tíma og fjármuni og fjölskyldumeðlimir eru ekki endilega sammála um það hvernig myndin eigi að líta út. Fyrir einhverja eru jólaminningarnar blandnar sársauka og einhverjir hreinlega kvíða jólunum.

Væntingar um að jólin eigi að vera á ákveðinn máta (kannski jafnvel fullkomin), geta líka ýtt undir vonbrigði og sársauka. Kröfur um fullkomnun og streitan sem þeim fylgir hefur slæm áhrif á okkur öll, líka börnin okkar.

Til þess að kóróna allt saman þá á kapphlaupið sér stað á dimmasta tíma ársins. Tíma sem býður okkur að draga úr kröfum, hvílast og endurnærast eins og náttúran öll gerir á vetrarsólstöðum. Ekki að stíga bensíngjöfina í botn og drekkja eigin tilfinningum í hávaða, neyslu og auglýsingum.

 En hvað þá,- getum við gert eitthvað öðruvísi?

Ég nefni hér nokkur atriði sem ég trúi að skipti miklu máli í því að draga úr streitu og ofurálagi um jólin.

Það er mikilvægt að staldra aðeins við og skoða eigin lífsgildi og hvernig þau tengjast jólunum. Við getum þannig tekið meðvitaða ákvörðun um hvað okkur er raunverulega mikilvægt að gera um jólin og forgangsraðað því.

Við getum notað þessar upplýsingar til að setja okkur ný markmið fyrir komandi jól, markmið þar sem við veljum það sem skiptir okkur mestu máli en látum annað mæta afgangi. Frábært að velta þessu upp með fjölskyldunni, þannig eiga allir sína rödd hvað varðar jólahaldið. Pabbar og mömmur, afar og ömmur geta öll verið frábærar fyrirmyndir í að draga úr væntingum og skapa nýjar áherslur.

Það þarf ekki að gera “allt” fyrir jólin en það sem við gerum þarf að vera okkur mikilvægt og endurspegla það hver við viljum vera. Það er okkar val og okkar ábyrgð að velja það sem skiptir raunverulegu máli fyrir okkur sjálf.

Það er ekki alltaf auðvelt val að fylgja lífsgildunum sínum. Neyslusamfélagið og markaðsöflin kunna að beita töfrum sínum til að fá okkur til að gera það sem þau vilja.

En ef við gerum það sem vitum að skiptir okkur mestu máli þegar upp er staðið, þá getum við frekar notið stundarinnar eins og hún kemur til okkar með öllu því sem henni fylgir. Því jólin eins og allar aðrar stundir fela í sér margs konar tilfinningar og skynjanir. Þegar upp er staðið skiptir þá kannski mestu máli að hafa gert það sem okkur finnst raunverulega rétt og gott og tekið góðar ákvarðanir. Hljóta það ekki að vera góð jól sem haldin eru í fullri sátt við eigin lífsgildi?

 Lykilspurningar varðandi jólahaldið gætu þannig t.d.verið:

 ·         Hvað er mér mikilvægast við jólahaldið og af hverju?

·         Hvað geri ég sem er mér ekki mjög mikilvægt en rænir af mér orku og ánægju?

·         Hvernig get ég verið góð fyrirmynd fyrir börnin mín og barnabörnin?

·         Hvernig get ég dregið úr streitu í jólahaldinu?

Ég óska okkur öllum þess að halda friðsæl jól í sátt við okkur sjálf og aðra, hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.

 Höfundur greinarinnar, Inga Dagný Eydal, er hjúkrunarfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.

Nýjast