Jólakaka ömmu Gullu
Gunnheiður Guðlaug Þorsteinsdóttir, bóndi á Fit undir Vestur-Eyjafjöllum og margföld amma, ætlar að deila uppskrift af sinni sígildu jólaköku. Þau sem lagt hafa kökuna undir tönn segja að þarna sé á ferð kaka sem engan svíkur. „Kakan er sögð fullkomin með ískaldri mjólk, helst beint af spena eða bara með kaffinu,“ segir Gulla glöð í bragði.
Gunnheiður Guðlaug, sem alltaf er kölluð Gulla, segir að hún hafi bakað þessa tilteknu köku, sem alltaf hefur verið kölluð „Jólakakan“ af þeim sem þekkja til, hver einustu jól síðan hún flutti að heiman eða í um það bil hálfa öld.
Gulla ólst upp á Görðum við Reynisfjöru í Mýrdalshreppi, en þaðan er uppruni uppskriftarinnar, þó ekki sé vitað hver bakaði fyrstu jólakökuna. „Mamma bakaði alltaf þessa köku í kringum jólin og ég gæti ekki ímyndað mér jólahátíðina án hennar hreinlega. Ég hef ekki upplifað jól án hennar, alla mína ævi,“ segir Gulla.
Móðir Gullu, Ragnheiður Klemenzdóttir, húsmóðir, bakaði kökuna nær undantekningarlaust á Þorláksmessu eða jafnvel stundum, tveim dögum fyrir aðfangadag, því eftirvæntingin var svo mikil hjá heimilisfólkinu að fá að gæða sér á kökunni og fá smá forskot á sæluna þarna um miðbik síðustu aldar, þegar Gulla sleit barnskónum á Görðum í Mýrdalnum.
Gulla segir aðspurð um hvort ekki hvíli einhver leynd yfir uppskriftinni, að svo sé ekki. Hún vill að sem flestir fái að njóta kökunnar og þylur svo upp uppskriftina eftir minni.
Uppskrift af sígildu jólakökunni hennar Gullu:
Byrjið á að hita ofninn í 200°
Innihaldsefni
- 400 g sykur
- 400 g smjör
- 500 g hveiti
- 8 egg
- ½ tsk. lyftiduft
- 1 appelsína
- 250 g súkkulaði
- Döðlur og/eða rúsínur
- Rauð og græn kokteilber
Aðferð
- Hrærið saman smjör og sykur þar til að það verður ljóst að lit
- Bætið eggjunum við, einu í senn
- Hrærið hveitið síðan saman við
- Rífið appelsínubörk, látið ½ brytjað súkkulaði, döðlur, rúsínur, rauð og græn kokteilber, kardimommur og örlítið af sítrónudropum í formin
- Bakið jólakökuna neðst í ofninum við 200°C til að byrja með, lækkið síðan hitann aðeins þegar líður á bökunartímann
- Bökunartími er 50-60 mín.
Deigið tilbúið, beint úr hrærivélinni
Jólakakan orðin hefð hjá afkomendum
Þegar Gulla er spurð hvort jólakakan sé hennar uppáhaldskaka, segir hún svo sannarlega vera og að henni finnist einstaklega gaman að baka hana líka, enda fylgja henni margar minningar og ekki skemmi bragðið heldur fyrir.
Gulla bakar jólakökuna rétt eins og móðir hennar á Þorláksmessu ár hvert. „Barnabörnin eru nú orðin þó nokkur skal ég segja þér og ég held að mér hafi tekist að gera þessa köku að hefð líka hjá dætrum mínum, sem eru þrjár talsins, rétt eins og hún hefur verið hjá mér og mömmu minni í gegnum tíð og tíma. Ég vona innilega að kakan slái í gegn hjá komandi kynslóðum þegar fram líða stundir, uppskriftin mun allavega lifa áfram.“
Deigið komið í form
Virkar líka á öðrum árstímum
Gulla segir að stundum hafi hún stolist í að baka jólakökuna að sumri til en það sé þá að ósk barnanna sem geta ekki beðið til jóla eftir að fá að leggja kökuna undir tönn. Þá hefur hún tekið forskot á sæluna og bakað hana yfir hásumarið. Hún segir að það heyri einungis til undantekninga og að hún vilji helst baka hana einungis yfir jólin, þá allra helst á Þorláksmessu.
„Jólakakan virkar alveg líka á öðrum árstímum en eins og nafnið gefur til kynna þá er kannski pínu siðlaust að baka hana á öðrum tíma en á jólunum. Ég sleppi allavegna kokteilberjunum því þau bera með sér svo jólalega liti, rauðan og grænan, sjáðu til. Kannski er þá hægt að segja sem svo að kakan sé sumarkaka og þá er vel hægt að borða hana með góðri samvisku, en hún er þó alltaf best um jólin,“ segir Gulla í jólaskapi að lokum.
Gunnheiður Guðlaug Þorsteinsdóttir, bóndi, í berjamó