Jólabúð Helga og Beate

Helgi er lúsiðinn við undirbúning jólatíðarinnar. Hér situr hann og klippir greinar fyrir jólakransa…
Helgi er lúsiðinn við undirbúning jólatíðarinnar. Hér situr hann og klippir greinar fyrir jólakransa á milli þess að segja okkur sögur og sötra kaffi. Mtndir

Bændahjónin Helgi Þórsson og Beate Stormo eru búsett í Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Þar kennir ýmissa grasa og við kíktum til þeirra í kaffi á heiðskírum og nístingsköldum nóvemberdegi og fengum að heyra hvað er á döfinni hjá hjónunum.

Helgi Þórsson tekur vel á móti okkur í anddyri sínu og býður okkur inn. Á móti okkur tók ilmur af greni og nýlöguðu kaffi. Heimili þeirra og vinnustofa bera merki þess að hér búi listrænt þenkjandi fjölskylda sem unir sér vel.

Við gengum inn í eldhús þar sem Helgi bauð okkur sæti og hóf sjálfur aftur að klippa niður greni fyrir jólakransa þessa árs. Beate er úti við og sinnir bústörfum á meðan.

Hjónin sitja sjaldan auðum höndum og ætíð er nóg að verkefnum í sveitinni og jólatíðin er þar engin undantekning. Framundan er jólatréssala þeirra hjóna ásamt opnun Jólabúðarinnar, þar sem til sölu er ýmiss konar snoturt og sniðugt handverk sem þau búa til sjálf.
Jólatré úr skóginum fyrir ofan Kristnes
Jólatrén sem þau hjón hafa til sölu eru höggvin í skóginum fyrir ofan Kristnes og eru af fjölbreyttri flóru. „Síberíuþinur, það eru þessir þinir sem eru barrheldnir. Svo er það stafafuran sem ilmar mikið, sumir elska hana og aðrir ekki. Svo er það blágrenið sem er líka duglegt. Kannski ekki 100% barrheldið,“ segir Helgi.
Hann segir sumt næstum því of ilmandi, „þegar maður er að vinna með þetta hérna heima. Það eru sterkar olíurnar í sumum af þessum barrtrjám.“
-Er hægt að hagnýta þessar olíur eitthvað?
„Já, en ég er ekki alveg kominn þangað, það er svolítill sérbúnaður,“ svarar Helgi að bragði.
„Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit“
Fyrstu aðventuhelgina opna Helgi og Beate dyr sínar fyrir viðskiptavinum en sá dagur kallast Opnar dyr í Eyjafjarðarsveit og býðst þá gestum og gangandi að heimsækja heimili eða fyrirtæki í sveitinni og versla ýmiss konar handverk.
Sjálf hafa hjónin í Kristnesi selt afurðir sínar árum saman. „Þetta er heilmikið, sko. Við erum búin að vera í þessum bransa í eitthvað yfir 20 árin,“ segir Helgi. Hjónin vilja reyna að hafa
nýtt og fjölbreytt úrval ár hvert og hafa selt ýmiss konar handverk; föt, hnífa, sápur, skartgripi, tálguð verk og fleira.
„Maður reynir að hafa búðina sem fjölbreyttasta, það þarf ekki að vera allt sem öllum líkar. Fara stundum að mörkunum og helst aðeins yfir þau.“
 „Pínu pönk í þessu
 Hjónin eru miklir náttúruunnendur og kveðst Helgi hafa gaman bæði að trjánum og fuglunum. Húsbóndinn hefur tálgað nokkra smáfugla sem sitja á eldhúsborðinu.
„Þegar ég fer að tálga fuglana þá reyni ég að gera auðnutittling, glókoll og maríuerlu og gera alls konar sérstakar tegundir. Ég hef líka sett þá í kransana, það er vinsælt og krúttlegt.“
Afrakstur handiðnarinnar
 Beate er afburðasnjall eldsmiður og smíðaði t.a.m. tveggja tonna risakúna Eddu sem stendur við Sólgarð í Eyjafirði og vakir yfir sveitinni. Nú smíðar Beate allminni módel af kúnni. Mikil þróunarvinna liggur á bak við hönnunina og smíðina sjálfa og hefur heppnast einkar vel.
Hún hefur einnig hannað og smíðað litla hnífa sem hvert heimili þyrfti að eignast. „[Hnífarnir] hafa verið stóra söluvaran sem hefur rokið út ár eftir ár. Við eigum svona sjálf og notum mikið. Hentugt í smáosta til dæmis.“ Einnig hafa þau hjón steypt bronshálsmen og notað íslenska steina í skartið. „Það er pínu pönk í þessu,“ segir Helgi.
Áramótatónleikar
Helgi er fjölskrúðugur listamaður eins og lesandi getur getið sér til um en Helgi er einnig einn af stofnmeðlimum hljómsveitarinnar Helgi og hljóðfæraleikararnir. Hljómsveitin hóf feril sinn árið 1987 og hefur verið iðin við að koma fram síðan þá. Hljómsveitin hefur nú boðað til áramótatónleika á Græna hattinum þann 30. desember næstkomandi.
-Þið hafið ekki gert neitt jólaalbúm?
„Nei, ekkert fyrir hinn stóra alheimsmarkað. Við gerðum litla geisladiska. Okkur fannst það mjög fyndið, Helgi og hljóðfæraleikararnir snúa út úr öllum jólalögum. Aðalbrandarinn í þeirri plötu var að ef það var nefnt jól í aðaltextanum þá var því breytt í bjór, þetta þótti voða gott. Þetta náði mjög miklum vinsældum innan lítillar grensu.“
 Búðin í stöðugri þróun
Helgi og Beate eru höfðingjar heim að sækja. Hægt verður að versla hjá þeim í Kristnesi allar helgar fram að jólum og svo alla daga frá 18. desember til jóla frá klukkan 13:00 til 17:00.
Hjónin stilla sér upp við litlu búðina sína á bæjarhlaðinu í Kristnesi. 

Aðsóknin í litlu jólabúðina þeirra er ágæt að mati Helga. „[Það] hentar fólki að skreppa aðeins á rúntinn og kíkja á einn eða tvo staði til að stoppa á. Við erum bara mjög ánægð með það. Búðin er í stöðugri þróun og við erum alltaf að bæta á fram á Þorláksmessu.“

 

Nýjast