30. október - 6. nóember - Tbl 44
Jólabókin Höfuðdagur – spjall um bók
Ástæðan fyrir því að þessi bók var skrifuð. ,,Hin síðari ár hefur mér sífellt verið hugsað til lífshlaups móður minnar sem sex
ára gömul hafði misst báða foreldra sína og hreppurinn setti niður hjá ókunnu fólki á Stokkseyri fyrir tæpum eitt hundrað árum," segir Ingólfur Sverrisson, höfundur bókarinnar.
"Hvernig komst hún af við aðstæður sem ríktu á þeim tíma í litlu þorpi við suðurströndina? Hvernig liðu dagarnir, hvernig reyndist fólk henni við þessar aðstæður og hvað skipti sköpum að hún komst heil frá því að vera hreppsómagi í tíu ár? Því miður hafði ég ekki haft döngun í mér til að spyrja hana sjálfa um þessi örlög meðan hún var á lífi.
Frekar en að sætta mig við fáfræðina um aðstæður móður minnar í æsku fór ég að safna saman staðreyndum sem gætu svarað einhverjum þessara spurninga og
geta síðan í eyðurnar með aðstoð annarra. Þannig vildi ég gera tilraun til að kynnast aðstæðum á Stokkseyri fyrir eitt hundrað árum, mannlífinu þar,
náttúrunni, baráttunni og viðmóti fólksins við einstæða stúlku sem bar harm sinn í hljóði.
Síðustu mánuði hafa þessi skrif ratað í sendibréf sem ég samdi og sendi henni yfir í Sumarlandið á höfuðdaginn þegar eitt hundrað ár voru liðin frá fæðingu
hennar.
Bókin Höfuðdagur er þetta sendibréf. Þar er fjallað um fyrstu árin í lífi hennar með kærum foreldrum, áfallinu mikla, hvernig árin sem „sveitarómagi”
liðu og hvernig hún tók út þroska sinn hjá góðu fólki sem reyndist henni vel. Sögunni lýkur þegar hún flytur sextán ára til Akureyrar, býr þar næstu áratugina
og eignast átta börn. Afkomendur hennar eru nú 109 talsins. Niðursetningurinn frá Stokkseyri fór því alls ekki erindisleysu norður!
Þegar móðir mín hafði misst báða ástkæra foreldra sína sex ára var hún sett í fóstur á vegum hreppsins í bæinn Grímsfjós á Stokkseyri þar sem bjó annálað heiðursfólk, Markús Þórðarson og Halldóra Jónsdóttir."
„Eitt sinn sá Halldóra af næmni sinni að stefna tók í óefni hjá þér. Hún greip til sinna ráða og sagði stundarhátt: „Hvernig líst þér á að skoða gömul leikföng
sem Andrés lék sér með fyrir nokkrum árum? Þau eru í kassa uppi á lofti. Komum.” Þú renndir þér niður af stólnum og fylgdir Halldóru út og upp
stigann. Þetta þótti kettinum Brandi sæta nokkrum tíðindum, hann hætti tafarlaust eigin snyrtingu og læddist á eftir ykkur hávaðalaust. Þegar þið voruð
komnar upp fór Halldóra rakleitt inn í lítið herbergi þar sem í einu horninu var kassi nokkuð við vöxt og í honum leyndust gömlu leikföngin.
„Svona dótakassar voru kallaðir völuskrín í gamla daga þegar ég var stelpa. Nú skulum við skoða hvað leynist hérna,” sagði Halldóra um leið og hún opnaði
skrínið. Þar blasti við hrúga af allskonar dóti, allt frá leggjum, skeljum, sviðabeinum og svo auðvitað ýmsar tegundir ýsubeina sem voru þó ekki eins
listilega skorin út eða með þeim hætti sem þú áttir að venjast heima. Athygli þín beindist fljótt að nokkrum tvinnakeflum sem voru hér og þar í skríninu, sum
voru eitthvað tálguð til og greinilega brúkuð til einhvers sem þú þekktir ekki.
„Já, sjáðu þetta,” sagði Halldóra og tók upp eitt keflið. „Hérna sérðu að borað hefur verið gat í mitt keflið en þó bara inn að gatinu sem gengur hér langsum í
gegn,” sagði hún. Svo benti hún þér á að í annan enda keflisins hafði verið festur tappi í helming gatsins þar. „Ja, nú skaltu sjá og heyra,” sagði hún, bar
keflið upp að vörum sér og blés þéttingsfast í allt saman. Við það gaf tvinnakeflið frá sér mjótt og skrækt hljóð og það svo hátt að þú hrökkst við og
Brandur þeyttist fet í loft upp og öll hár hans risu upp eins og á broddgelti. Honum var greinilega mjög brugðið og hann forðaði sér í loftköstum frá þessum
hryllingi niður, út um dyrnar og þaðan í hendingskasti bak við kerru sem þar stóð. Þið Halldóra hlóguð hins vegar hjartanlega að þessum viðbrögðum hans
og hélduð áfram að gramsa í góða stund.”
Þegar móðir mín hafði verið fermd dróg að því að hún varð að standa á eigin fótum og sjá um sig sjálf. Hvernig stóð á því að hún flutti alla leið norður á
Akureyri sextán vetra? Hvernig gekk það mikla ferðalag og hverjar voru móttökurnar fyrir norðan? Frá þessu öllu er sagt í bókinni sem kennd er við
afmælisdag hennar – höfuðdag.
Ingólfur Sverrisson skrifar bókina