Jól á dimmum tímum
Greinin birtist fyrst í jólablaðið Vikublaðsins
Eftir innrás Rússa í Úkraínu hafa milljónir manna þurft að flýja land sitt og setjast að á nýjum stað. Þó nokkrir Úkraínumenn hafa komið til Íslands og einhverjir til Akureyrar þar sem þeir hyggjast hefja nýtt og öðruvísi líf. Þegar stutt var til jóla hafði undirritaður samband við þrjár úkraínskar konur sem nú eru búsettar á Akureyri og spurði hvernig væri að halda jól á nýjum stað, undir nýjum kringumstæðum.
Lesia Moskalenko, Oksana Chichkanova og Khismatulina Tatiana segja allar jólin mikilvæga hátíð í Úkraínu. „Jólin eru fjölskylduhátíð og þeim er fagnað heima við í Úkraínu.“
Ævafornir kristnir og heiðnir siðir fara saman um jólahátíðina í Úkraínu. Á jólakvöldinu – sem er 6. janúar í Úkraínu en Þrettándinn hér á Fróni – eru að minnsta kosti 11 þjóðlegir réttir borðaðir en ekkert kjöt. Aðaljólarétturinn er Kutia – hveitigrautur með valmúafræjum, hunangi og hnetum. „Það er nóg um hráefni til að gera úkraínskan mat hér á Akureyri, meira að segja fást uppáhalds valmúafræin okkar í Nettó,“ segir Lesia.
Jesús er fæddur
„Svo um kvöldið þegar fyrsta stjarnan birtist á himni, segjum við: „Jesús er fæddur“ og tignum hann. Daginn eftir, 7. janúar, heimsækjum við foreldra okkar og hlustum á börn og unglinga syngja jólalög,“ segir Oksana.
„Gamlársdagur er almennur frídagur. Þá förum við á tónleika, það eru ýmsar uppákomur og við skemmtum okkur á götum úti. Það eru flugeldar og við drekkum kampavín,“ segir Lesia. „Á gamlárskvöld eldum við yfirleitt 2-3 veislurétti. Það er hefð hjá minni fjölskyldu að hafa svokallað Oliver-salat á gamlársdag. Svo fögnum við nýju ári með kampavínsglasi og flugeldum og fáum við gesti daginn eftir,“ segir Oksana.
„Fyrir gamlárskvöld skreytum við jólatréð og setjum gjafir undir það. Svo um morguninn förum við og leitum að fótsporum eftir jólasveininn,“ segir Khismatulina.
Óttast árásir Rússa
„Aðal jólatréð í Úkraínu er alltaf á aðaltorgi Kænugarðs. Í ár verður tréð á sínum stað en það verður tengt við rafal og skreytingarnar verða ekki keyptar af borginni heldur velgjörðarmönnum, vegna þess að borgin þarf að nýta allt sitt fjármagn til að vernda borgara frá rússneskum árásum,“ segir Lesia.
Hún segir að landsmenn óttist að sjálfsögðu að Rússar geri árás nálægt trénu – „því þeir hafa gert sprengjuárásir á leikskóla og fæðingadeildir. En fólk vill halda jól og upplifa gleðistundir þó það séu dimmir tímar. Við sem erum hér á Akureyri munum elda Kutia og kveikja á kertum. Fjölskylda okkar og vinir munu gera það sama heima í Úkraínu,“ segir Lesia.
Töfrar í kringum jólahátíðina í Úkraínu
„Á ýmsum hátíðisdögum fram að jólum svo sem „St. Andrew's day, „St. Catharines day“ eða kvöldið fyrir jól, áttu úkraínskar konur það til að nota töfra til að lesa í framtíðina. Töfrarnir sáu fyrir hvort næsta uppskera yrði góð og hvort margir nautgripir myndu fæðast. Allar stelpur vildu svo auðvitað vita hvort þær myndu hitta ástina sína,“ segir Lesia.
Hún segir að töfrabrögðin hafi verið framkvæmd með því að nota korn, vatn, kerti, spegla og föt. Þeir sem ætluðu að framkvæma töfra máttu ekki borða né tala allan daginn fyrir athöfnina.
„Stundum voru litlar soðkökur eldaðir og hver og ein þýddi eitthvað. Svo sóttu þau hund eða kött og fylgdust með hvaða soðköku dýrið borðaði og hvaða köku ekki. Með því til dæmis að setja upp tvo spegla og kveikja á kertum á milli, átt þú að geta séð brúðguma þínum bregða fyrir. En djöflar geta einnig birst, svo að töfrar eru líka hættulegir. Við gerðum þetta þegar ég var lítil. Ég man ekki hvað ég sá í speglunum, en þetta var gaman og óhuggulegt,“ segir Lesia.
Eigum svipaðar sögur heima í Úkraínu
„Ég elska sögurnar um jólasveinana 13 hér á Íslandi og að þeir komi einn af öðrum.
Við eigum svipaðar sögur heima í Úkraínu, um litla púka sem búa á meðal manna, í húsum, háaloftum og í kjallaranum.
Ég get ekki alveg þítt nöfnin þeirra en þeir heita um það bil: sá sem býr á bak við eldavélina og sá sem býr í hlöðunni. Þeir stunda litla hrekki svipað og íslensku jólasveinarnir eins og að sleikja diska eða stela mjólk frá kúm. En þeir gefa ekki gjafir. Það sem mér finnst pínu skrítið og fyndið er að það sé til risastór jólaköttur sem getur borðað mannfólk,“ segir Lesia.
Áhugasamar um íslenskar jólahefðir
„Ég myndi vilja prófa fleiri íslenska þjóðarrétti til að vita hvernig var að búa á Íslandi fyrr á öldum. Ég er ekki viss um að ég geti borðað svið eða hákarl en ég er opin fyrir því að prófa ef einhver býður mér“ segir Lesia.
„Ég er mjög áhugasöm um íslenskar jólahefðir. Ég veit um Grýlu, Jólaköttinn og jólasveinana. Sonur minn er smá hræddur við þá en hann ætlar samt að setja skóinn út í glugga. Þessi félagskapur, með Grýlu fremsta í flokki, er pínu skrýtinn. Jólasveinarnir minna mig á litla púka sem við höfum í Úkraínu. Íslensku jólasveinarnir eru eins og skondnir hrekkjalómar borið saman við þá. En það sem mér finnst standa upp úr eru öll húsin á Akureyri sem eru svo vel og mikið skreytt. Það er ekkert smá fallegt og svo huggulegt í myrkrinu,“ segir Oksana.
HB