20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Íslenskir ferðamenn leyfa sér meira
Það var ekki bjart útlitið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á Húsavík þegar Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst. Flest fyrirtæki hafa nýtt hlutabótaleið stjórnvalda og héldu að sér höndum þegar kom að ráðningu sumarstarfsfólk. Síðan hefur bærinn bókstaflega iðað af lífi og veitingahús bæjarins verið full út úr dyrum dag eftir dag mest allan júlímánuð.
Guðrún Þórhildur Emilsdóttir, veitingamaður á Veitingahúsinu Sölku er til að mynda mjög ánægð með hversu vel hefur ræst úr sumrinu. „Þetta er búið að vera mjög fínt. Íslendingar hafa verið svakalega duglegir að koma og ekki síst Húsvíkingar. Þetta er eiginlega lúxusvandamál sem við höfum verið með, aðsóknin er það mikil,“ segir hún og bætir við aðasókn hafi margsinnis toppað bestu dagana á Mærudögum.
„Þannig að við erum mjög sátt með sumarið hingað til.“ Hún segir að það hafi verið tilfellið með Sölku eins og mörg önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu að ákveðið hafi verið að hætta við sumarráðningar í vor. „Við höfum verið að ráða núna upp á síðkastið og fengið inn t.d. starfsfólk sem við vorum með í vetur,“ útskýrir Þórhildur en viðurkennir að það vanti enn gott fólk. „Það eru ekki margar umsóknir sem við liggjum á.“
Þá bendir Guðrún á að íslenskir ferðamenn leyfi sér mun meira en þeir erlendu. „við erum búin að vera með frábæra kúnna og þetta er búið að vera mjög skemmtilegt sumar.“
-epe