Íslensk tónlist við Maríuvers
María drottning dýrðar er tónleikadagskrá helguð íslenskri tónlist við Maríuvers og bænir en þær Helga Kvam píanóleikari og Þórhildur Örvarsdóttir söngkona standa að tónleikunum. Í tilkynningu segir að íslensk tónskáld hafa í gegnum aldirnar sótt innblástur í Maríuversin og gera enn í dag.
Á tónleikunum rekja þær Helga og Þórhildur sig í gegnum síðustu 100 ár í íslenskri tónlistarsögu, „og færa ykkur rjómann af Maríutónlist þess tímabils með tónskáld á borð við Atla Heimi Sveinsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Sigvalda Kaldalóns, Karl O. Runólfsson og Sigurð Flosason innanborðs. Á tónleikunum mun ný tónlist verða í aðalhlutverki þar sem tónskáld samtímans vefa Maríu ný klæði,“ segja þær stöllur.
Helga og Þórhildur hafa unnið saman um nokkurra ár bil og flutt söngdagskrár með íslenskri tónlist vítt og breitt um landið við mikið lof áheyrenda. Tónleikadagskráin er eftirfarandi; í Þorgeirskirkju mánudaginn 3. júní kl 20:30, í Ólafsfjarðarkirkju þriðjudaginn 4. Júní kl 20:00, í Akureyrarkirkju fimmtudaginn 6. júní kl 20:00, í Þórshafnarkirkju mánudaginn 10. júní kl 20:30, í Hólaneskirkju, Skagaströnd þriðjudaginn 11. júní kl 20:00, í Vinaminni, Akranesi miðvikudaginn 12. Júní kl. 20:00 og í Fríkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 13. júní kl. 20:00.
Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Norðurlands eystra.