Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Ingvar Þóroddsson verður yngsti þingmaðurinn á Alþingi
„Ég hlakka mikið til að takast á við nýtt starf,“ segir Ingvar Þóroddsson sem kjörinn var á Alþingi Íslendinga í kosningum síðastliðinn laugardag fyrir Viðreisn. Þar er hann yngsti þingmaðurinn, 26 ára gamall, fæddur árið 1998. „Ég er virkilega stoltur af okkur öllum, það er mikilvægt að ná inn kjördæmakjörnum þingmönnum í bæði Norðurlandskjördæmin og gerir okkur á margan hátt auðveldara fyrir að efla flokksstarfið og virkja grasrótina.“
Ingvar er fæddur á Akureyri en ólst víða upp. Hann er elsta barn foreldra sinna, þeirra Þórodds Ingvarssonar og Aðalheiðar Rósu Jóhannesdóttur, sem bæði eru læknar. Um það bil sem hann fæddist var pabbi hans að ljúka stúdentsprófi og móðir hans á síðasta ári. „Þau lærðu læknisfræði og við áttum mikið heima í útlöndum, m.a. lauk ég grunnskólanámi í Gautaborg í Svíþjóð,“ segir Ingvar. Árið 2014 fluttu foreldrarnir til Noregs en Ingvar var sendur heim til afa og ömmu á Akureyri og hóf nám við Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hann lauk stúdentsprófi.
Vill skapa tækifæri á landsbygginni
Þá tók Háskóli Íslands við og lauk Ingvar BS-prófi í rafmagnsverkfræði þaðan. Hann lauk meistaraprófi frá Berkeley háskóla í Kaliforníu sumarið 2023. „Mig langaði að eiga heima á Akureyri og stefndi á það, en heyrði mikið þau viðhorf að það væri bara spurning hvenær ég kæmi á höfuðborgarsvæðið þar sem öll tækifærin væru. Það viðhorf er því miður ansi ríkjandi víða, að allt sé í gangi á höfuðborgarsvæðinu og hvergi annars staðar hægt að vera. Mig langar að breyta því og vona að mér gefist færi á því. Það eiga að vera tækifæri fyrir hendi á landsbyggðinni, en ég veit að þetta verður áskorun sem gaman verður að takast á við.“
Ingvar segist hafa farið víða um kjördæmið í kosningabaráttunni og það hafi verið virkilega skemmtilegt. „Ég var ekki endilega á atkvæðaveiðum, mig langaði að heyra í fólki og hvað helst brennur á því. Nesta mig vel fyrir það ferðalag sem fram undan er og að mínu mati tókst það vel. Ég hitti marga og heyrði þeirra sjónarmið.“
Heilbrigðismálin hugleikin
Ingvar tók að sér kennslu í stærðfræði og eðlisfræði við Menntaskólann á Akureyri, leysti þar af kennara í eitt ár. „Ég vissi að ekki yrði framhald á því og var í startholum með að hefja leit að nýrri vinnu þegar ljóst var að yrði kosið og til greina kæmi að ég yrði efstu á lista Viðreisnar í Norðaustur kjördæmi. Þetta tækifæri bankaði upp á hjá mér á hárréttum tíma og ég stökk á það. Sé ekki eftir því, þetta var mjög skemmtilegt og ég komin með nýja vinnu.“
Ingvar með ömmum sínum, frá vinstri er móðuramman Helga Ester Snorradóttir og föðuramman er Guðrún Baldursdóttir til hægri
Ingvar segir heilbrigðismál vera sér hugleikinn og vill beita sér fyrir þeim málaflokki. Hann hafi líka fundið á því fólki sem hann hitti um allt kjördæmið að þau brenna mjög á fólki. Nefnir hann að víða megi gera betur og þörf á því sé mikil. Sjúkrahúsið á Akureyri sem dæmi sé varasjúkrahús fyrir landið en þar hafi ýmsar sérgreinar horfið á liðnum árum. Of mikið sé um að fólk þurfi að leita lækninga með ferðum til Reykjavíkur, en oft sé hægt sé leysa málin á annan veg, með því að senda lækna til móts við sjúklinga og með fjarlækningum.