Íbúðum fjölgað í Tónatröð

Tillaga Yrki arkitekta að uppbyggingu. Mynd úr skipulagslýsingu.
Tillaga Yrki arkitekta að uppbyggingu. Mynd úr skipulagslýsingu.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í gær skipulagslýsingu vegna breytinga á skipulagi svæðis við Spítalaveg og Tónatröð í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu. Greint er frá þessu á vefsíðu Akureyrarbæjar.

Skipulagslýsing er í raun lýsing á skipulagsverkefninu, þar sem koma fram helstu áherslur bæjarstjórnar, upplýsingar um forsendur, fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli.

Skipulagsráð bæjarins tók í byrjun nóvember fyrir tillögu Yrki arkitekta að uppbyggingu við Tónatröð og samþykkti að hefja vinnu við breytingu á skipulagi svæðisins.

Markmiðið að nýta svæðið betur

Í stuttu máli felur tillagan í sér breytt fyrirkomulag lóða og húsa þar sem aukið er við byggingarmagn og íbúðum fjölgað. Gert er ráð fyrir að breyta þurfi bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi. Samkvæmt núgildandi skipulagi eru á svæðinu óbyggðar einbýlishúsalóðir en lagt hefur verið til að í staðinn verði byggð fjölbýlishús.

Í skipulagslýsingunni kemur fram að miðlæg staðsetning svæðisins geri það áhugavert til uppbyggingar, jafnvel þótt það sé ekki skilgreint sem þéttingarsvæði í gildandi aðalskipulagi. „Miðað við framgang uppbyggingar á svæðinu undanfarin 30 ár er ekki talið skynsamlegt að gera áfram ráð fyrir stórum einbýlishúsum á tveimur til þremur hæðum eins og deiliskipulag svæðisins hefur hingað til miðað við. Er það mat skipulagsráðs að nýta mætti svæðið með betri hætti,“ segir í lýsingunni.

 

Nýjast