Íbúðasvæði með allt að 100 nýjum íbúðum

Í deiliskipulagstillögu eru skilgreindar íbúðarlóðir fyrir 85 til 98 nýjar íbúðir á svæðinu kringum …
Í deiliskipulagstillögu eru skilgreindar íbúðarlóðir fyrir 85 til 98 nýjar íbúðir á svæðinu kringum Hrafnagilshverfi. Mynd/esveit.is

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur samþykkt að kynna drög að aðal- og deiliskipulagstillögu fyrir Hrafnagilshverfi fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.

Um er að ræða skipulagsverkefni sem hófst sumarið 2020 og hafði að markmiði að marka heildstæða stefnu fyrir uppbyggingu og þróun Hrafnagilshverfis til lengri tíma litið.  Í aðalskipulagstillögunni felst að í landi Grísarár eru skilgreind ný íbúasvæði meðfram Eyjafjarðarbraut og í brekkunni ofan núverandi byggðar. Þá er tekin frá lóð við Gömlu garðyrkjustöðina á Grísará undir athafnasvæði.

Íbúðir fyrir aldraða

Íbúasvæði er skilgreint á óbyggðu svæði milli Laugaborgar og Reykár. Í deiliskipulagstillögu eru skilgreindar íbúðarlóðir fyrir 85 til 98 nýjar íbúðir. Þær skiptast í 33 einbýlishús, 29 til 42 íbúðir í raðhúsum og 23 íbúðir í fjölbýlishúsum, þar af 9 íbúðir fyrir aldraða í viðbyggingu við fyrrum heimavist Hrafnagilsskóla.

Fram kemur á vefsíðu Eyjafjarðarsveitar að einnig hafi verið mörkuð stefna um yfirbragð byggðar, stíga, og götukerfi sem og útivistarsvæði. Gert er ráð fyrir nýrri íbúðargötu sunnan við Skólatröð og breytingar gerðar á tengingu milli gatna á svæðinu.

/MÞÞ

Nýjast