20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Íbúðasvæði með 30 til 40 íbúðum í landi Ytri-Varðgjár
Vinna er að hefjast við gerð deiliskipulags fyrir 16,2 ha íbúðarsvæði í landi Ytri Varðgjár í Eyjafjarðarsveit. Landslag ehf. hefur þá vinnu með höndum. Á svæðinu hefur landeigandi uppi áform um að byggja 30-40 íbúðarhús með aðkomu frá Veigastaðavegi.
Skipulagssvæðið liggur að landamörkum við Austurhlíð í norðri og að landamörkum við Syðri-Varðgjá í suðri. Lögð verður áhersla á að lóðir og byggingar falli sem best að landslagi og langhalli vega verði eins lítill og kostur er, en skilmálar verða settir varðandi slíkt í deiliskipulagi að því er fram kemur í skipulagslýsingu.
Sunnarlega innan skipulagssvæðisins er bæjartorfan Ytri-Varðgjá sem samanstendur af íbúðarhúsi og nokkrum útihúsum en aðkomuvegur er að bæjartorfunni frá Veigastaðavegi. Mögulegt er að núverandi hús víki af svæðinu við skipulag íbúðarbyggðar en einnig er mögulegt að núverandi hús verði skipulögð inn í fyrirhugaða byggð.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur vísað skipulagslýsingu fyrir íbúðarsvæðið í kynningarferli.