20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Íbúar á Norðurlandi eystra almennt ánægðir
Íbúar á Norðurlandi eystra virðast heilt yfir ánægðir að því er fram kemur í könnun sem gerð var í landshlutunum og greint er frá á vefsíðu SSNE.
Þegar afstaða íbúa til búsetuskilyrða er tekin saman og svæðunum gefin vigtuð einkunn, skipa Eyfirðingar efsta sætið með 7,2 stig af 10 mögulegum. Þá var Akureyri í þriðja sætinu með 6,8 og svo Þingeyjarsýsla í 9. sæti með 6,0 en þau hækkuðu um 0,7 stig í einkunn frá síðustu könnun sem kom út 2020 að því er fram kemur í pistli framkvæmdastjóra SSNE.
Þá var einnig spurt hvort það væri almennt séð gott eða slæmt að búa þar sem þau bjuggu. Þar kom Norðurland eystra einnig sérstaklega vel út, en í fyrsta sæti var Akureyri þar sem 96% íbúa töldu frekar eða mjög gott að búa þar, í öðru sæti Þingeyjarsýsla með 95% og í þriðja sæti Eyjafjörður með ríflega 93%. „Með öðrum orðum – það er gott að búa á Norðurlandi eystra en við viljum gjarnan leggja okkar að mörkum til þess að auka þá gleði enn frekar. Í því samhengi vonumst við auðvitað til mikils af nýrri Sóknaráætlun landshlutans sem verður kláruð nú í haust og tekur gildi um áramót,“ segir í pistlinum.
Það besta og versta
Á Akureyri komu náttúra, internet, friðsæld og öryggi best út þegar horft var til stöðu og mikilvægis samtímis. Heilsugæsla, þjónusta við aldraða, dvalarheimili, loftgæði, laun, framfærsla, vöruverð og skipulagsmál komu verst út að teknu tilliti til mikilvægis.
Í Eyjafirði voru náttúra og friðsæld þeir þættir sem komu best út, þegar horft var til stöðu og mikilvægis samtímis, og þar á eftir öryggi og loftgæði. Vöruverð, vegakerfið og heilsugæslan komu verst út að teknu tillit til mikilvægis. Almenningssamgöngur og fasteignamarkaðurinn stóðu líka illa en voru ekki eins mikilvægir þættir og aðrir þættir könnunarinnar.
Í Þingeyjarsýslu komu náttúra og friðsæld einnig best út þegar horft var til stöðu og mikilvægis samtímis og þar á eftir öryggi og loftgæði. Vöruverð kom lang verst út hvað varðar gæði með hliðsjón af mikilvægi og þar á eftir fylgdi vöruúrval. Leigu- og sölumarkaður íbúða komu illa út sem og almenningssamgöngur og námsmöguleikar á háskólastigi, en töldust ekki eins mikilvægir og aðrir þættir könnunarinnar.