Í kjölfar kosninga
Á undanförnum vikum hafa margir rýnt í úrslit kosninganna og keppst við að finna útskýringar á gengi flokkanna, sem eðlilegt er. Niðurstaðan í Norðurþingi var nokkuð afgerandi hvað varðar sigurvegara kosninganna, þar sem Sjálfstæðisflokkur fékk 477 atkvæði, eða 30,1% og því stærsti flokkurinn. Aðrir flokkar fengu hlutfallslega sambærilegan eða minni stuðning samanborið við kosningarnar 2014, auk nýs framboðs sem hlaut einn mann.
Augljós meirihlutamyndun – eða ekki?
Oddviti Framsóknarflokksins í Norðurþingi sagði í síðasta tölublaði Skarps að mat hans væri að vilji kjósenda væri skýr; að tveir stærstu flokkarnir mynduðu meirihluta í sveitarstjórn Norðurþings. Ég verð að vera ósammála því að það sé svo augljóst. Ef um svo augljósa stöðu væri að ræða hljóta að finnast skýr dæmi annarsstaðar um myndun slíks meirihluta í öðrum bæjarfélögum. Ef slíkt er athugað kemur í ljós að hvergi er það þannig í tólf stærstu sveitarfélögum landsins að tveir stærstu flokkarnir myndi meirihluta í sveitar- og bæjarstjórnum og því alls ekki sjálfsagt mál að slíkur meirihluti sé myndaður, nema síður sé. Framsóknarflokkurinn er í meirihlutasamstarfi í sjö af þessum 12 stærstu sveitarfélögum landsins, en hvergi er það svo að flokkurinn sé annar tveggja stærstu flokkanna. Þannig að vitanlega er þetta ekki þannig að kjósendur kalli eftir einhverjum ákveðnum meirihluta, enda kjósa einstaklingar með einu atkvæði einn flokk sem hver og einn treystir best. Það ræðst svo eftir kosningar hvernig meirihlutasamstarfi er háttað á hverjum stað. Fullt tilefni er reyndar hér í Norðurþingi að mínu mati m.v. málefnaskrár flokkanna fyrir kosningar að ná breiðri samstöðu í allri sveitarstjórn um hin ýmsu mál, en mögulega er það óskhyggja að einhverju leyti þegar á hólminn er komið. Það kemur allt í ljós á komandi mánuðum.
Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegari kosninganna
Sá flokkur sem sigraði kosningarnar var Sjálfstæðisflokkurinn, sem setið hefur í meirihluta undanfarin þrjú kjörtímabil og nú síðast í samstarfi við Vinstri hreyfinguna grænt framboð og óháða. Það var sameiginleg og eindregin afstaða þeirra sem stóðu að framboði Sjálfstæðisflokksins, í ljósi úrslitanna og trausts samstarfs á síðasta kjörtímabili, að fyrsti kostur við myndun meirihluta í Norðurþingi væri að leita til V og S lista um þá myndun. Án þess að aðrir kostir í stöðunni hafi verið útilokaðir í upphafi. Afstaða forystumanna Framsóknar fyrir kosningar var reyndar skýr á það upplegg og markmið Sjálfstæðismanna að kjörinn fulltrúi yrði sveitarstjóri að afloknum kosningum. Það var þeim ekki að skapi ef marka má fésbókarsíður oddvitans og fráfarandi oddvita flokksins nokkrum dögum fyrir kosningar. Þessi skilaboð til Sjálfstæðisflokksins voru vitanlega ekki til þess fallin að teygja sig í áttina til samstarfs eftir kosningar, svo lítið dæmi sé tekið. Gagnrýni er hinsvegar holl og góð og nauðsynleg. En hana má setja fram með afar margvíslegum hætti og með mismunandi tilgang í huga. Ekkert óeðlilegt er við það að skiptar skoðanir séu á hlutunum og væntanlega hið eðlilegasta mál að fólk sem hefur svipaðar skoðanir á forgangsröðun málefna og hvernig vinna skuli hlutina, nái best saman. Það þýðir heldur ekki að meirihluti geti ekki unnið með minnihluta í sveitarstjórn að flestum málum eða öfugt. Alls ekki.
Meirihluti D, V og S lista niðurstaðan í Norðurþingi
Meirihlutasamstarf D, V og S lista er niðurstaðan og er ég ánægður með málefnasamning framboðanna og hlakka til samstarfsins í sveitarstjórn. Það er bjart framundan hjá okkur og ég hef fulla trú á því að nýrri sveitarstjórn takist að koma góðum málum í framkvæmd og að við munum öll róa í sömu átt þegar kemur að uppbyggingu samfélagsins hér í Norðurþingi. Gangi okkur vel.
Kristján Þór Magnússon, oddviti D-lista Sjálfstæðisflokks