Hvetur alla unglinga til að vera skapandi
Ragnheiður Inga Matthíasdóttir, 14 ára Akureyringur sem gengur undir listamannsnafninu Ragga Rix, sigraði Rímnaflæði, rappkeppni unga fólksins sem var haldin á síðasta ári. Ragga keppti fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Tróju á Akureyri og flutti lagið Mætt til leiks.
Rímnaflæði var fyrst haldið 1999 en þessi skemmtilega keppni hefur verið stökkpallur ungra og efnilegra rappara úr félagsmiðstöðvum landsins til að skapa sér nafn í tónlistarheiminum. Keppendur eru á aldrinum 13-16 ára og er skilyrði að textar séu samdir af keppendum.
Nú hefur Ragga Rix fylgt sigrinum eftir með nýju lagi, ,,Bla bla bla” sem hægt er að hlusta á á Youtube. Myndbandið við lagið tók hún upp sjálf með liðsinni föður síns. Vikublaðið ræddi við þessa hæfileikaríku listakonu og hún sagði aðeins frá nýja laginu sem er kraftmikil ádeila á veruleika unglinga í dag.
„Bla bla bla er í rauninni fyrsta alvöru lagið mitt. Ég gaf út Mætt til leiks en þá var ég að keppa í Rímnaflæði þannig að þetta er svona annað lagið mitt sem ég gef út,“ segir hún.
Sterkar skoðanir
Það fer ekkert á milli mála að Ragga er með sterkar skoðanir og hefur hæfileika til að koma þeim á framfæri.
„Lagið er aðallega um það hvernig er að vera unglingur í dag, allt þetta rugl sem er í gangi á samfélagsmiðlum. Til dæmis „body shaming““ segir rapparinn ungi og útskýrir hugtakið svo betur á íslensku. „Íslenskan fyrir það er víst líkams smánun en fáir nota það. Það snýst um gagnrýni á líkamann, að hann passi ekki inn í Instagram módelið eða staðalinn. Svo fjallar lagið líka um að 14 ára krakkar eru farnir að fikta við að veipa. „Toxic“ eða eitraða vinahópa og símaheiminn sérstaklega,“ útskýrir hún.
Blaðamaður spyr hana þá hvað hún eigi við með símaheiminum og það stendur ekki á svörum. En það er ádeila á hinn tvöfalda veruleika unglinga í dag. „Þú getur sett upp svona prófíl á netinu en ert samt bara einhver annar í raunveruleikanum. Það er alltaf ákveðið sjokk sko,“ segir Ragga en vill þó taka fram að það sé mikið af ungu fólki að gera frábæra hluti.
„Það er virkilega gaman að vera unglingur og mikið af skemmtilegum tækifærum. Ég vil taka það fram að það er hellingur af krökkum að gera góða hluti. Margir sem eru gera eitthvað skapandi, en það heyrist oft hæst í hinum,“ segir Ragga og bætir við að hún hvetji alla unglinga til að vera skapandi.
Blautir Sokkar
Ragga hefur rappað í þónokkur ár þrátt fyrir ungan aldur. „Ég er búin að vera rappa frá því ég var 9 ára og byrjaði í rappbandinu Blautir sokkar með litlu stystur minni þegar við bjuggum á Eyrinni,“ segir Ragga hlæjandi og bætir svo við: „Við vorum heimsfrægar á Eyrinni.“
Ragga semur alla sína texta sjálf og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Hún segist eiga sér nokkrar íslenskar fyrirmyndir í tónlistinni. „Þær eru nokkrar, MC Gauti alveg klárlega, hann er 100% kúl. Aðrir flottir íslenskir eru t.d. Jón Jónsson og Salka Sól, Ég tek þau mér til mikillar fyrirmyndar,“ segir Ragga og bætir við hún ætli sér að halda áfram að skrifa og svo komi hún fram á tónleikum í apríl.
Stefnir hátt
„Ég kem fram á SamFestingnum núna í apríl, það er stærsta SamFés ball ársins. Allar félagsmiðstöðvar landsins koma saman. Ég er að verða komin með þokkalegt prógram, nokkur gigg framundan,“ segir Ragga og bætir við að hún eigi nokkur lög inn á youtuberásinni sinni.
„Ég stefni bara á hæstu hæðir og halda áfram að skrifa og gefa út,“ segir Ragga Rix að lokum.