20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hvers vegna ég varð grænkeri
Matgæðingur síðustu viku, Leifur Þorkelsson skoraði á Valdimar Halldórsson framkvæmdastjóra til að sjá um Matarkistu Skarps. Hann varð hins vegar að biðjast undan vegna anna. Það er því lítið annað að gera í stöðunni en að ritstjóri hlaupi sjálfur í skarðið.
Vegan lífstíll nýtur sívaxandi vinsælda hér á landi sem og víða í okkar heimshluta. Til marks um það hefur meðlimum Facebook-hópsins Vegan Ísland, fjölgað gríðarlega frá stofnun hans árið 2014 og eru þegar þetta er ritað 21. 339 talsins. Þessi tala segir þó lítið um það hversu margir Íslendingar hafa tekið upp vegan lífstíl en eitt er þó víst að áhugi landsmanna á fyrirbærinu vegan hefur margfaldast á mjög skömmum tíma.
Sagan af því þegar ég varð grænkeri
Það var í júní á síðasta ári, fyrstu alvöru sólardagarnir voru farnir að lyfta geði guma. Og það sem gjarna fylgir hækkandi sól og hlýrra loftslagi er hinn altumlykjandi grill-ilmur sem umsvifalaust eykur munnvatnsframleiðsluna og dregur hugann að ísköldum bjór. Grillsteikurnar sér maður í hyllingum og kartöflur löðrandi í smjöri.
Ég hef aldrei átt almennilegt grill, risastórt skrímsli sem pumpar egói í karlmennsku mína. Nú skyldi verða breyting þar á. Fyrsta sumarið í nýju (100 ára gömlu) húsi með stórum svölum þar sem lognið og síðdegissólin eiga lögheimili.
Ég gerði mér ferð niður í Húsasmiðju þar sem búið var að leggja heila deild undir fjölbreytt úrval af kola- og gasgrillum. Þarna voru t.d. lítil sæt kúlugrilll í krúttlegum litum,- ég sendi þeim yfirlætislegt bros og hristi höfuðið samúðarfullt áður en ég gekk famhjá og sendi krúttunum skýr skilaboð um að þau væru einskis virði. Ég ætlaði ekki að fara halda neinn andskotans saumaklúbb á svölunum hjá mér. Það sem ég þurfti skyldi vera risastórt því ég ætlaði að grilla górillur og steypireiðar. Það skyldi vera svart og krómað með fullt af mælum og tökkum og alls konar drasli. Það átti að kosta hrikalega mikið og heita „king“ eitthvað.
Eftir skamma leit fann ég það sem ég dreymdi um, glansandi vöðvafjall af grilli frá Ameríku úr ryðfríu stáli með skrilljón óþarfa mælum og tökkum og meira að segja einhverju snúnings grægrimsi sem ég vissi ekki hvað á að gera við og fimm brennarar sem mér skilst að sé mikilvægt atriði,- og rúsínan í grillpylsuendanum – Það hét „king“ eitthvað.
Ég blikkaði grillið og það blikkaði mig. Ég stauk glansandi lokið munúðarfullt og lagði vangan upp að því. Ég get svo svarið það að ég heyrði það hvísla: „Ég elska þig; taktu mig. Taktu mig núna!“
Með hjartað fullt af eldmóði, hug sem spilaði fyrir mig ættjarðarljóð arkaði ég stinnur af karlmennsku, heim á leið til að fá fjárheimild frá eiginkonunni.
Það greip mig skyndileg angist þegar ég opnaði útidyrnar heima hjá mér og gekk beint inn í reykelsisilm og austurlenska hugleiðslutónlist. Nötrandi í hnjáliðunum læddist ég karlmennskulaus upp stigann og inn í stofu. Þar blasti við mér manneskja sem líktist konunni minni, íklædd jóga-múnderingu, sitjandi í lótus stellingu á dínu á miðju stofugólfinu. Hún reis tignarlega á fætur með rjóðar kinnar og órætt augnaráð. „Elskan...“ sagði hún og um varir hennar lék einkennilegt núvitundarbros sem ég varð strax skíthræddur við og mér leið eins og hægðist á veröldinni. „...Ég var að horfa á heimildamynd!... VIÐ erum núna VEEEGAAANNN!!“
Þetta er auðvitað gróf skrumskæling á því sem raunverulega gerðist en tímasetningin er rétt. Konan viðraði vissulega hugmyndina um nýjan lífstíl en ég hafði verið að hugsa um það sama lengi og ef eitthvað er þá er ég líklega enn áhugasamari grænkeri en hún. Það sem skiptir þó mestu er að mér líkar vel hinn nýji lífstíll. Mér finnst maturinn minn vera fjölbreyttari og bragðbetri en hann hefur nokkurn tíma verið, matarkarfan hefur aldrei verið ódýrari, matarsóun mín hefur dregist mikið saman og er nánast engin í dag, magasárið er með öllu horfið og rúsínan í pylsuendanum; ég er í dag mikið mun meðvitaðri um alla mína neyslu og á þar af leiðandi auðveldara með að draga úr því sem ég þarf ekki og skaðar umhverfið. Þessi lífstíll er kominn til að vera.
Vegan Netflix-kvöldverður
Hráefni
6-8 meðalstórir sveppir
1 rauðlaukur
1 rauð paprika
2 hvíttlauksrif
1 dós nýrnabaunir, lífrænar
1 dós svartar baunir, lífrænar
2 krukkur „chunky“ salsa (300g, með smábitum)
1 poki tortilla flögur, með salti
1 poki tortilla flögur með chilli
1 tsk. salt
1 tsk. svartur pipar
2-3 tsk garðablóðberg (timían) þurrkað
2-3 tsk. paprikuduft
Cayenna pipar, á hnífsoddi eða meira
Ólífuolía (eða vatn til steikingar)
1 dós oatly smur“ostur“
1 dós oatly creme fraiche
Aðferðafræði
Olían er hituð á pönnu og rauðlaukurinn, skorinn í ræmur ásamt pressuðum hvítlauksrifjum er bætt út á. Ég salta strax sem ég geri raunar jafnt og þétt á öllum stigum eldunarinnar. Þegar laukurinn er orðinn vel mjúkur, krydda ég vel og leyfi honum að brúnast aðeins betur á meðalhita áður en ég bæti niðurskornum sveppum við og salta. Þegar sveppirnir byrja að mýkjast og rýrna tek ég aðra kryddumferð (Það þarf að vera kraftur í þessu) og bæti síðan smátt saxaðri papriku saman við. Rétt undir lok steikingar bæti ég baununum út á pönnuna og krydda eina ferðina enn og smakka til áður en ég set salsa sósuna út á. Það á að vera kengur í þessu þegar hér er komið sögu, helst að kalla fram smá kláða í eyrnagöngunum. Ég nota yfirleitt miðlungsterka salsa-sósu en það er bara af tillitssemi við konuna sem vill helst hafa milda (svona erum við miklir diplómatar). Þegar salsa er komið út á blönduna má lækka all verulega undir pönnunni eða jafnvel slökkva alveg undir.
Ég smyr botninn á eldföstu móti (all-stóru) með oatly smur“osti“ helli þvínæst pönnublöndunni yfir, myl smátt, sitthvora lúkuna af chilly og saltflögum yfir blönduna og smyr að lokum einni krukku af salsa (medium hot) og ein dós af oatly sýrðum „rjóma“. Það er reyndar gott að raða nokkrum heilum salt -tortillaflögum á toppinn því þær eru góð mælistika á það hvenær rétturinn er tilbúinn; atsvo þegar þær eru orðnar vel brúnaðar. Ég vara við því að nota chillyflögurna á toppinn þar sem þær eiga auðveldara með að skaðbrenna.
Þá er bara að taka þetta út úr ofninum, setja flögur í skál, opna góðan bjór og finna skemmtilega þáttaseríu á Netflix og kvöldið er fullkomnað.