20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hvers vegna að kjósa Viðreisn?
Framundan eru enn einar kosningarnar, kosningar sem skipta þó gríðarlegu máli fyrir okkar litla þjóðfélag. Fyrir síðustu kosningar kom fram nýtt frjálslynt og Evrópusinnað stjórnmálaafl sem axlaði ábyrgð og tók sæti í ríkisstjórn sem auðnaðist ekki langir lífdagar. Þrátt fyrir stuttan líftíma stjórnarinnar náði Viðreisn að koma mörgum málum áfram. Það má nefna ákvörðun um fjármagn til að klára Vaðlaheiðargöng, áframhaldandi vinna við Dettifossveg, öflug vinna fjármálaráðherra við lækkun á skuldum ríkissjóðs og lækkun á vaxtagreiðslum okkar allra. Síðast en ekki síst er jafnlaunavottunin sem tryggja mun jafnrétti í launum og mun leiða til enn meiri jafnréttis kynjana.
Viðreisn leggur áherslu á stöðugleika bæði í rekstri ríkissjóðs og í gjaldmiðlamálum. Það mun leiða af sér lægri vexti. Hver vill vinna klukkutíma meira á dag bara til að greiða vexti? Vexti sem eru umtalsvert hærri en í öðrum löndum norður Evrópu. Bara þetta er góð ástæða til að kjósa Viðreisn!
En í okkar kjördæmi er Viðreisn með nokkur áherslumál sem standa mér nærri, það er í flugmálum. Fjármálaráðherra hefur stutt duglega við áform um beint áætlunarflug til beggja millilandaflugvalla kjördæmisins. Viðreisn mun leggja á það áherslu að flugvélabensín verði verðlagt á sömu verðum og í Keflavík, það eru almannahagsmunir og mun stuðla að aukinni dreifingu ferðamannna um landið allt.
Nauðsyn þess að klára stækkun á flughlaði við Akureyrarflugvöll er gríðarlegt öryggsmál fyrir allt landið. Ákaflega mikilvægt er að til staðar sé alþjóðaflugvöllur sem getur tekið við, með skömmum fyrirvara við þeim mörgu þotum sem eru á hverjum tíma á leið til landsins og gætu af einhverjum orsökum ekki lent í Keflavík.
Viðreisn mun tryggja að almannahagsmunir séu í fyrirrúmi í flugmálum á Íslandi.
Hugleiddu þetta kjósandi góður og endilega mættu á kjörstað og settu x við C
-Friðrik Sigurðsson flugrekstrarfræðingur. Skipar 7.sæti á framboðslista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi