20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hver er Igga í 2. sætinu á V-lista?
Ingibjörg Benediktsdóttir skrifar
Undirrituð, Ingibjörg Benediktsdóttir (Igga) flutti til Húsavíkur ásamt fjölskyldu fyrir þremur árum síðan. Það er ekki von á að bornir og barnfæddir Þingeyingar þekki mig, fyrir utan þá sem voru með mér í Laugaskóla. Við fjölskyldan höfum aðlagast vel, ég og Sverrir minn bæði ánægð í störfum okkar og krakkarnir sáttir í skólanum á Húsavík. Okkur líkar vel að búa í Norðurþingi. Ég á stóra fjölskyldu með Sverri (sonur Gumma stæ og Möggu í Vilpu), fimm börn og eitt barnabarn. Við Sverrir rákum smábátaútgerð, með tvo báta og fjölskyldan verkar hákarl á Ströndum. Við eigum líka skógrækt sem yngsti sonur okkur stefnir á að taka við þegar afi hans hættir.
Fv. oddviti í Strandabyggð
Þegar við bjuggum á Hólmavík sat ég í sveitarstjórn og frá árinu 2010 gegndi ég ýmsum trúnaðarstörfum á mínu svæði á Ströndum. Ég var oddviti í sveitarstjórn Strandabyggðar og sat í stjórn Vestfjarðarstofu, í samgöngunefnd fjórðungsins og í stjórn Byggðasamlags um málefni fatlaðra á Vestfjörðum. Ég átti líka sæti í stjórn Orkubús Vestfjarða og Fiskmarkaði Hólmavíkur og ýmislegt fleira gæti ég talið.
Ég brenn fyrir málefnum barna og ungmenna. Ég tók þátt í að koma á fót ungmennaráði í Strandabyggð þar sem ungmenni eru áheyrnarfulltrúar í öllum nefndum sveitarfélagsins að undanskilinni Velferðarnefnd og þar fá ungmennin greiðslur líkt og aðrir í nefndum. Að mínu mati þá eflast ungmenni í samfélagslegri ábyrgð og taka þátt í að móta samfélagið og finna að þeirra skoðun skiptir máli og með því eykur það líkur á að þau taki þátt í slíkum störfum áfram á fullorðinsárum.
Þegar mér bauðst að fara á námskeið hjá Fjölmenningarsetri á síðasta ári um málefni erlendra íbúa var ég ekki lengi að skrá mig. Þar lærði ég að kenna námskeið sem kallast Fjölbreytnin auðgar og eru áform um að kenna þetta námskeið um allt land. Þetta námskeið fjallar um hvernig við getum hjálpast að við að útrýma hvers kyns fordómum með sérstaka áherslu á vinnumarkaðinn. Ég er með mikla réttlætiskennd og vil að allar raddir samfélagsins heyrist. Ég trúir því að samtal og samskipti séu besta leiðin.
Þetta eru ekki einubaráttu mál mín, ég tekst þó á við öll þau lífsins verkefni sem fyrir mér eru lögð með áræðni og þrautseigju, þó ég segi sjálf frá. Það er mér mikilvægt að leggja mitt af mörkum til samfélagsins og að raddir allra heyrist. Ég er forvitin og áhugasöm um fólk og skoðanir.
Ég hefur barist fyrir bættum samgöngum á Vestfjörðum, keypt slökkvibíl, byggt félagslegar íbúðir og ég hef staðið á tröppum Byggðarstofnunar og óskað eftir því að heimbær minn fái stöðu brothættrar byggðar. Ég mun því klárlega leggja mitt af mörkum við að gera Norðurþing betri.
Bjartsýn á komandi ár
Ég brenn fyrir að taka þátt í að gera samfélagið í Norðurþingi gott og búsetuvænt fyrir alla íbúa hvort sem þeir búa í þéttbýlinu eða dreifbýli. Norðurþing hefur alla burði til að þróast í jákvæða átt á komandi árum enda eru innviðir býsna sterkir á mörgum sviðum. Öfugt á við ýmis köld svæði á landinu eru til staðar miklar orkuauðlindir í Þingeyjarsýslum sem munu nýtast við frekari uppbyggingu á græna iðngarðinum á Bakka. Svo eru náttúruperlur sem laða að sér ferðamenn og öflugur landbúnaður einnig. Þá er til staðar sterkur sjávarútvegur í sveitarfélaginu og vaxandi uppbygging nýsköpunar- og þekkingargeira. Ég lít því bjartsýn til komandi ára og leita eftir stuðningi íbúa í Norðurþingi.
Ingibjörg Benediktsdóttir,
Höfundur er í 2. sæti á V-lista í Norðurþingi