Hvenær hafa breytingar leitt til framfara?

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Þegar fregnir bárust af því að Akureyri hafi misst sæti sitt sem næststærsti kaupstaður landsins og raunar dregist enn frekar aftur úr, dæstu bæjaryfirvöld og sögðu að sígandi lukka væri best og því ekki ástæða til að harma þessa þróun. Auk þess fylgja illvígir vaxtarverkir kröftugri uppbyggingu og forðast ber að leggja slíkar þjáningar á bæjarbúa sé þess nokkur kostur. Samkvæmt þessari kenningu má ætla að í bæjarfélögum, sem nú sigla fram úr Akureyri, ríki töluverð vanlíðan meðal íbúa vegna meintra vaxtarverkja sem svífa yfir og allt um kring og gera fólki lífið leitt. Sem betur fer er þessu ekki þannig farið í raun því eftir því sem best er vitað er fólk í þessum bæjarfélögum harla ánægt með uppbyggingu og kröftugan framfarahug og hlær hugur í brjósti að sjá vel undirbúið skipulag í bæjarfélagi sínu raungerast í stað þess að daga upp í hillum.

Vitað er að næsta stig fyrir neðan hæga og verkjalausa þróun er algjör stöðnun. Henni geta ekki síður fylgt töluverðir verkir og þjáningar þegar til lengri tíma er litið, því  ef ekkert er að gert leiðir það einlægt til þess að innviðir samfélagsins láta undan síga og við blasir afturför og verri lífskjör. Ekki er vænlegt til árangurs að láta ónæði sem fylgir uppbyggingu draga úr sér kjarkinn eins og manninum sem spurði önugur þegar honum leiddust hamarshögginn og tilfæringarnar sem breytingum fylgja: "Hvenær hafa breytingar leitt til framfara?"

Nú gæti þú lesandi góður haldið að með þessum orðum sé verið að gefa í skyn að þannig sé komið fyrir mínum góða bæ Akureyri.  En sem betur fer erum við ekki komin svo langt af leið því ef vel er að gáð er sannarlega verið að vinna þar að ýmsum framfaramálum. Eftir sem áður þykir okkur mörgum að um alla þá viðleitni gildi sama lögmálið og við systkinin uppgötvuðum í Ránargötunni forðum tíð, að litli vísirinn á stóru klukkunni í stofunni hreyfðist sannarlega þrátt fyrir allt enda þótt við sæjum hann ekki mjakast úr stað hvað sem við gláptum. Hann hreyfðist nú samt - en ofurhægt.   

Á sama hátt má með góðum vilja greina hægfara hreyfingar í þá átt að koma samþykktu skipulagi miðbæjarins til framkvæmda. Innan bæjarkerfisins er farið að undirbúa fyrsta hænufetið við að hanna og byggja umferðarmiðstöð fyrir norðan ráðhúsið eins og gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir.  Þá  liggur fyrir umsókn hjá bænum að byggja myndarlegt hús austan og sunnan við Nýja bíó í samræmi við sama skipulag. Vitað er um áhuga fleiri fjárfesta að byggja á öðrum reitum þar fyrir austan og suður að gatnamótum Kaupvangsstrætis. Með því - og gerð vistvænnar Glerárgötu frá Torfunefi og norður að Grænugötu - yrði lokið við uppbyggingu hins nýja og glæsilega miðbæjar Akureyrar i samræmi við deiliskipulagið sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn árið 2014.  Væri þá risinn öflugur miðbær með fjölbreytt mannlíf, atvinnustarfsemi og menningu sem er ein forsenda þess að Akureyrarbær styrkist enn frekar og verði eftirsóknarverður fyrir komandi kynslóðir.

Þessu uppbyggingarstarfi gætu vissulega fylgt einhverjir vaxtarverkir en hvaða foreldrar taka mat frá börnum eða unglingum til að koma í veg fyrir kvilla sem vextinum fylgir? Þeir ganga yfir og eftir stendur fullvaxta einstaklingur með glæsta framtíð fyrir höndum. Sama verður uppi á teningnum þegar búið verður að byggja nýjan miðbæ við hlið þess eldri sem áfram mun standa fyrir sínu. Á þann hátt mun hið nýja og hið gamla mynda perlu íslenskra miðbæja. Þar með er lagður grunnur að eftirsóknarverðu bæjarfélagi sem hefur burði til að vera raunverulegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

Nýjast