Hvalasafnið á Húsavík býður til fjölskyldustunda

Eva Káradóttir, framkvæmdstjóri Hvalasafnsins og Heiðar Hrafn Halldórsson verkefnastjóri. Mynd: Hval…
Eva Káradóttir, framkvæmdstjóri Hvalasafnsins og Heiðar Hrafn Halldórsson verkefnastjóri. Mynd: Hvalasafnið/Facebook.

Ferðaþjónustan á Húsavík finnur vel fyrir samdrætti í komum ferðamanna til landsins eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu.Garðar Þröstur

Garðar Þröstur Einarsson, hjá Hvalasafninu á Húsavík tekur undir áhyggjur ferðaþjónustunnar en sumarstarfið er komið vel af stað hjá safninu. . Hann segir ekki vafa á því að ferðamenn séu færri í ár en á sama tíma í fyrra en tekur fram að við séum enn bara í júní og það geti margt átt eftir að gerast í sumar.

„Við finnum alveg vel fyrir þessari fækkun, það er ekki spurning,“  segir Garðar Þröstur og bætir við að þó hann sé ekki með tölfræðina yfir heimsóknir á safnið í kolllinum þá eigi þessi 10-15 prósenta fækkun sem verið hefur í umræðunni alveg rétt á sér. „Það eru vísbendingar á lofti þetta snemma sumars að vertíðin verði ekki jafn góð og spár frá því í janúar gerðu ráð fyrir.“

Norðan hretið sem reið yfir í byrjun júní hafði talsverð áhrif á hvalaskoðun og aðra útivistartengda ferðaþjónustu þar sem bræla var yfir lengri tíma. Slíkir dagar eru þó huggun harmi gegn fyrir safnastarfið því þá leitar ferðamaðurinn skjóls inni á söfnunum. „Þetta eru góðir dagar fyrir safnið, þá koma allir sér inn á safnið enda alltaf blíða hér inni hjá okkur,“ segir Garðar Þröstur sposkur á svip.

 Metnaðarfullt fræðslu og menningarstarfHelga Dagný

Hvalasafnið er ekki bara viðkomustaður ferðamanna heldur er þar rekið metnaðarfullt fræðslustarf allt árið. Í sumar var ráðin inn nýr starfsmaður, Helga Dagný Einarsdóttir sem mun starfa við safnið út ágúst. Hún mun vinna við að dýpka fræðslustefnu safnsins og búa til nýtt kennsluefni fyrir hvalaskólann.

Í sumar mun Hvalasafnið bjóða upp á sérstaka fjölskyldudaga annan hvern laugardag en fyrsti viðburðurinn fer fram á morgun, laugardag.

„Við erum að gera þetta í samstarfi við fleiri stofnanir á svæðinu og ætlum að reyna keyra svolítið á fræðsluviðburði fyrir fjölskyldur á Húsavík. Við erum að vinna þetta mikið með STEM-Húsavík. Fyrsti viðburðurinn er einmitt núna á laugardaginn og þá mun Huld Hafliðadóttir frá STEM koma og vera með sýndarveruleikaupplifun,“ útskýrir Helga Dagný og bætir við að markmið viðburðanna sé að auka áhuga á náttúruvitund og læsi á náttúruna í kringum okkur.

„Við lögðum upp með það að vera með eitthvað meira lifandi í kringum safnið og besta leiðin til þess er auðvitað að nýta eitthvað af öllu þessu klára fólki sem er að vinna hér í kringum okkur,“ segir Helga Dagný og hvetur fjölskyldufólk til að láta sjá sig á laugardag með börnin sín en viðburðurinn hefst klukkan 10.


Athugasemdir

Nýjast