Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Glerárkirkja. Mynd: Arnar Yngvason.
Glerárkirkja. Mynd: Arnar Yngvason.

Bæjarstjórinn á Akureyri Ásthildur Sturludóttir með nýársávarp

Um áramót er okkur tamt að líta um öxl en þá er ekki síður mikilvægt að horfa fram á veginn um leið og við spyrjum „hvað boðar nýárs blessuð sól?“ eins og séra Matthías Jochumsson gerði forðum daga.

Árið 2023 hefur verið viðburðaríkt innanlands sem utan. Jarðhræringar og eldgos hafa skapað ótryggt ástand á suðvesturhorni landsins en hér við Eyjafjörð hefur árið verið okkur nokkuð hagsælt. Það sama verður ekki sagt um heimsbyggðina alla. Því miður geisa stríðin of víða og alltaf er mannskepnan sjálfri sér verst. Guð gefi að árið 2024 verði friðsælla en árið sem er að líða.

Mig langar að stikla á stóru í þeim málaflokkum þar sem umsvif sveitarfélagsins eru hvað mest og þar sem mestu framfaraskrefin hafa verið stigin á því herrans ári 2023.

Spennandi breytingar í leikskólamálum

Hvert sveitarfélag vill gera eins vel og hægt er til að veita góða þjónustu í leik- og grunnskólum. Engum er hollt að festast í viðjum vanans og því verðum við að vera óhrædd við að skoða nýjar lausnir til að ná betri árangri. Svokallaðar heimgreiðslur til foreldra leikskólabarna hófust í haust og munu verða við lýði a.m.k. fram í júlí á næsta ári. Um tilraunaverkefni er að ræða sem virðist mælast vel fyrir. Annað slíkt verkefni hefst um áramótin með breytingum á gjaldskrá leikskóla sem fela m.a. í sér gjaldfrjálsan sex tíma leikskóla en gjöld fyrir tíma umfram það verða tekjutengd.

Undirbúningur er hafinn að byggingu nýs leikskóla í Hagahverfi en til að mæta þörfum foreldra fyrir leikskólapláss þar til skólinn rís, voru opnaðar nýjar leikskóladeildir í Oddeyrarskóla og Síðuskóla. Þeirri lausn var afar vel tekið af foreldrum og forráðamönnum.

Og þá ríkti ekki síður gleði og ánægja þegar nýtt og stórglæsilegt leiksvæði var vígt við Síðuskóla eftir mikla og góða samvinnu þeirra sem nota svæðið. Hægt og bítandi hafa leiksvæði við grunnskóla bæjarins verið endurnýjuð og þeirri vegferð verður fram haldið á nýju ári.

Tryggjum farsæld og jafnan rétt

Það er mikilvægt að við tökum höndum saman og styðjum við bakið á fólki sem býr við mótlæti, stendur höllum fæti eða á hvergi höfði sínu að halla. Akureyrarbær lætur ekki sitt eftir liggja í þeim efnum og á síðasta ári var m.a. skrifað undir samning um samræmda móttöku flóttafólks á Akureyri en við höfum síðastliðin ár tekið á móti hópum flóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið til landsins.

Eitt af hlutverkum sveitarfélagsins er að hjálpa þeim sem þurfa stuðning við að búa sér heimili og eru í viðkvæmri stöðu af ýmsum ástæðum. Til að svo megi verða hafa verið reist smáhýsi í Dvergholti fyrir fólk sem þarf stuðning samfélagsins og þar bættust við tvö ný hús á árinu.

Framsækið sveitarfélag vill gera öllum jafn hátt undir höfði og tryggja að jafnrétti ríki á öllum sviðum. Það er sannarlega mikið langhlaup en með einurð og atorku, samhentu átaki okkar allra sem byggjum þetta land, mun takmarkið nást.

Á árinu var skrifað var undir samstarfssamning við Samtökin ‘78 um fræðslu um kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og kyneinkenni fólks sem ég held að verði okkur öllum til góðs.

Einnig var undirritaður samningur við Grófina geðræktarmiðstöð sem veitir fólki með geðraskanir, 18 ára og eldra, samastað til að vinna að bataferli sínu með aukinni virkni, jafningjastuðningi, hópastarfi og stuðningssamtölum við ráðgjafa.

Loks var afar gleðilegt þegar gengið var frá samstarfssamningi við Bergið Headspace sem felur í sér aukna þjónustu við ungt fólk sem þarf stuðning og ráðgjöf, þróun á geðheilbrigðisþjónustu við ungt fólk og þjónustu sem byggir á snemmtækri íhlutun.

Viðamikil uppbygging innviða

Mikil uppbygging er í farvatninu á Akureyri og veit ég að margir horfa með tilhlökkun til þeirra framkvæmda sem nú hefur verið ákveðið að ráðast í á félagsvæði KA og Golfklúbbs Akureyrar. Þannig verður fram haldið annars staðar í bænum eftir því sem efni og aðstæður leyfa, enda eru íbúar duglegir að nýta sér frábæra aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu og afreksfólkið okkar skilar hverjum titlinum á fætur öðrum heim í hérað. Of langt mál yrði að telja upp alla sigra einstaklinga og liða í hinum ýmsu íþróttagreinum en ég óska þeim öllum innilega til hamingju og þakka þeim fyrir að bera hróður okkar svo víða.

Áhuginn fyrir uppbyggingu á tjaldsvæðisreitnum svokallaða er mikill og það sýndi m.a. frábær aðsókn á kynningarfund um framtíðarskipulag reitsins sem fram fór fyrr á árinu.

Á haustdögum var fyrsta skóflustungan tekin að hinu nýja Móahverfi nyrst og vestast í bænum. Gert er ráð fyrir að í hverfinu verði um 1.100 íbúðir sem hýsa munu 2.300-2.400 manns.

Á árinu var skrifað undir samning við ríkið um byggingu á nýju hjúkrunarheimili en uppbygging og rekstur heimila fyrir aldraða er á forsjá ríkisins og mikilvægt að eldra fólki sé búið áhyggjulaust ævikvöld.

Sú einstaka framkvæmd sem vekur sjálfsagt hvað mesta athygli er endurbætur á hinum víðfrægu kirkjutröppum sem eru svo stór hluti af bæjarmyndinni. Gömlu tröppurnar hafa verið fjarlægðar og steyptar verða nýjar tröppur með snjóbræðslukerfi og fallegri lýsingu. Allt tekur þetta sinn tíma og þarf að vinnast í takti við hinn séríslenska vetur sem hentar oft og tíðum lítt til framkvæmda af þessu tagi. Ég veit að þegar upp verður staðið munu allir kætast og bæjarbúar fyllast stolti yfir nýju kirkjutröppunum við Akureyrarkirkju.

Menningarbærinn Akureyri

Menningarlífið hefur löngum verið ein af skrautfjöðrum Akureyrar og verður svo um ókomna tíð. Í bænum starfar þróttmikið listafólk og haldnar eru óteljandi sýningar, tónleikar og uppákomur af öllu tagi bæjarbúum og gestum okkar til ómældrar ánægju.

Mikið var um dýrðir á 30 ára afmælisári Listasafnsins á Akureyri þegar settar voru upp alls 23 sýningar fyrir alla aldurshópa. Verk Ragnar Kjartanssonar „The Visitors“ jók fjölda gesta safnsins svo um munaði enda einstakt á heimsvísu og ég veit að fjölmargir heimsóttu safnið aftur og aftur einungis til þess að njóta þessa verks.

Það var líka ákveðinn áfangasigur þegar loksins var skrifað undir 30 milljóna króna samning við menningar- og viðskiptaráðuneytið um skylduskil Amtsbókasafnsins en stofnunin er ein af skylduskilastofnunum landsins.

Mikið gleðiefni var að í lok ágúst á afmæli Akureyrarbæjar komu forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reed í sína fyrstu opinberu heimsókn til Akureyrar. Forsetahjónin tóku þátt í þéttri og fjölbreyttri dagskrá, nutu meðal annars menningar og lista, og tóku bæjarbúar forsetahjónunum fagnandi.

Rekstur Menningarfélags Akureyrar gekk afar vel á síðasta starfsári og starfið blómlegt. Starfsemi Hofs, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Leikfélags Akureyrar á mikið undir því að menningarsamningur bæjarins við ríkið sé vel fjármagnaður. Því miður vantar talsvert upp á að við getum borið fjárveitingar saman við þær sem sambærilegar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu njóta og betur má ef duga skal.

Ég bind vonir við nýjan menningarsamning við ríkisvaldið sem nú er í burðarliðnum og verður vonandi undirritaður innan tíðar. Trú mín er sú að þessi samningur verði til að skjóta enn styrkari stoðum undir blómlegt menningarlíf í höfuðborg hins bjarta norðurs.

Eyjarnar fögru í norðri

Hrísey, perla Eyjafjarðar, vakti athygli út fyrir landsteinana á árinu þegar ferðavefurinn Lonely Planet mælti með henni sem áfangastað fyrir ferðafólk sem vill kynnast einhverju nýju úr alfaraleið. Mannlífið í Hrísey er gott og búseta fólksins þar á sér bjarta framtíð.

Í Grímsey skiptust á skin og skúrir. Ferjan Sæfari var í slipp stóran hluta ársins sem hafði afar slæmar afleiðingar fyrir ferðamennsku við heimskautsbauginn. Það er einlæg von mín og krafa að biðin eftir nýrri ferju fari að styttast.

Eftir umtalsverðar tafir við byggingu nýrrar Miðgarðakirkju horfir nú til betri vegar eftir að búið er að skoða betur kostnaðarliði og hafa sjálfboðaliðar unnið í takt við það fjármagn sem safnast. Vonir standa til að hægt verði að halda guðþjónustu í nýrri Miðgarðakirkju um næstu jól.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Börnin okkar eru framtíðin og það var yndislegt að fá að heimsækja tuttuguþúsundasta Akureyringinn snemma í vor, hana Rebekku Rún sem fæddist 14. apríl 2023. Stúlkan var vær og fögur og hamingjan skein úr augum foreldranna, Þóreyjar Erlu Erlingsdóttur og Alexanders Ottós Þrastarsonar. Þegar ég fæ að taka kornabörn eins og hana Rebekku Rán í faðm mér þá hverfa allar þrautir og mér finnst veröldin brosa blíð og góð. Slíkt boðar vonandi nýárs blessuð sól.

Um jól og áramót er mikilvægt að hugsa hlýtt til þeirra sem eiga um sárt að binda. Hugsum til Grindvíkinga sem búa við mikla óvissu og hafa mætt of miklu mótlæti undanfarið. Munum að víða er hart í heimi þar sem styrjaldir geisa. Biðjum þess að menn leiti friðar og sátta á nýju ári fremur en að láta hefndarþorsta, græðgi og grimmd ráða gjörðum sínum.

Skáldið okkar, séra Matthías, átti í miklu sálarstríði um aldamótin 1900 sem braust fram í ýmsum kvæðum hans. Hann hafði horft upp á miklar þrengingar fátæks fólks við Eyjafjörð og orti meðal annars hið magnaða kvæði „Volaða land“ þegar honum virtust öll sund lokuð. Um svipað leyti orti hann „Minn friður er á flótta, mér finnst svo tómt og kalt“ þar sem hann lýsir því hvernig angistarfullur einstaklingur finnur aftur vonina og ljósið í trú á æðri mátt. Lokaerindið hljóðar svo:

Þú breiðir arma bjarta 
og barnið faðmar þitt, 
ég finn þitt heita hjarta, 
og hjartað fagnar mitt. 
Ég vil ei við þig skilja, 
ég vel þitt náðar-skjól; 
mitt veika líf er lilja, 
þín líkn er hennar sól.

Ég ber þá einlægu von í brjósti að blessuð nýárssól boði okkur öllum birtu og frið.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir hið liðna!

Ásthildur Sturludóttir, 
bæjarstjóri á Akureyri

 

Nýjast