„Húsvíkingar geta verið stoltir af þessu svæði“
Veðrið lék við golfara á Húsavík þegar blaðamaður Vikublaðsins leit við á Katlavelli í byrjun vikunnar enda margir sem nýttu blíðuna til golfiðkunnar, bæði heimafólk og gestir. Birna Ásgeirsdóttir, formaður Golfklúbbs Húsavíkur segir í samtali við blaðið að þrátt fyrir misjafnar hitatölur í sumar þá sé vertíðin búin að vera draumi líkust og mikið um að vera.
Vikublaðið var með umfjöllun í febrúar á þessu ári um gríðarlega uppbygginu á aðstöðuhúsi Golfklúbbs Húsavíkur en nýtt 300 fermetra klúbbhús er sannkölluð bylting í starfi klúbbsins samanborið við gamla húsið sem var um 80 fermetrar.
Trésmiðjan Rein sá um að reisa húsið og gera það fokhelt en klúbbmeðlimir hafa hjálpast að við að koma húsinu í stand og hefur það verið tekið í notkun að mestu þó hluti af æfingaaðstöðunni sé enn að klárast. „Við stefnum á að opna húsið formlega innan skamms og þá verður boðið til veislu. Það verður vonandi í byrjun september,“ segir Birna og bætir við að handtökin hafi verið mörg í vetur til að koma húsinu í notkun fyrir vertíð en þau hafi verið erfiðisins virði og vel það.
Golf allt árið
„Það er ótrúlega góð tilfinning að vera komin með hús sem býður upp á að stunda golfið allan ársins hring og hafa loksins alla starfsemi klúbbsins undir sama þaki,“ segir hún en áður hafa klúbbmeðlimir verið að stunda æfingar yfir veturinn í leiguhúsnæði í bænum.
Golf nýtur sívaxandi vinsælda á Íslandi og er Húsavík engin undantekning, enda þykir Katlavöllur með betri og fallegri 9 holu völlum á landinu. Golfurum á Húsavík hefur enda fjölgað undanfarin ár og eru í dag um 120 meðlimir í GH. Íþróttin virðist höfða til allra aldurshópa og er vinsælt para og fjölskyldusport. Barnastarfið er afar öflugt í klúbbnum og hefur iðkenndum af yngstu kynslóðinni fjölgað mjög á undanförnum árum. „Við stöndum fyrir öflugu námskeiðahaldi fyrir börn unglinga á sumrin en það hefur verið mjög vel sótt nú í sumar. Nú erum við líka komin með okkar eigin þjálfara sem mun hjálpa við að halda í þessa krakka allt árið um kring,“ segir Birna en Karl Hannes Sigurðsson, varaformaður GH hefur orðið sér úti um þjálfararéttindi og er það mikill hvalreki fyrir klúbbinn.
Viðburðir um hverja helgi
Fjölmörg mót hafa verið haldin á Katlavelli í sumar og hefur þátttaka verið vonum framar, frá 60 og vel yfir 80 þátttakendur á hverju móti. „Við vorum að klára eitt mót núna um helgina, GPG mótið en það gekk ótrúlega vel, þá var Skóbúð Húsavíkur mótið helgina áður. Norðlenska Open um Mærudaga og svo auðvitað Blush open þar áður. Það er svona hjóna og paramót en það var alveg ótrúlega skemmtilegt,“ segir Birna og bætir við að sé búið að tryggja að það verði haldið aftur að ári.
Viðbót við matarmenninguna í bænum
Það er ekki aðeins bætt aðstaða til golfiðkunnar sem nýtt klúbbhús hefur upp á á bjóða. Með tilkomu hússins hefur orðið kærkomin viðbót við matarmenningu Húsavíkur en í vor opnaði nýr veitingastaður í húsinu, Röff Bistro en staðurinn hefur fengið mjög góðar viðtökur meðal bæjarbúa. „Við fengum þau Jón Elvar og Önnu Guðmundsdóttur til að reka veitingastaðinn en þau hafa staðið vaktina í gamla skálanum sl. tvö ár. Staðurinn hefur verið vel sóttur í sumar og ekki hægt að segja annað en að Húsvíkingar hafi kunnað vel að meta hann,“ segir Birna.
Golftúrisminn blómstrar
Þegar blaðamaður leit við á Katlavelli á mánudag, tók hann tali golfara frá Garðabæ sem var að æfa sveifluna í blíðunni. Sá kunni vellinum vel söguna og sagði hann vera ótrúlega góðan og ekki síður fallegan. Hann sagði jafnframt að aðstaðan í nýja húsinu væri til mikillar fyrirmyndar.
Birna segir að golfáhugafólk sé mjög duglegt við að nýta ferðalög sín innanlands til að heimsækja og prófa nýja golfvelli og margir ferðist allt sumarið gagngert til að spila golf. Sjálf hafi hún verið dugleg að spila á sínum ferðalögum í sumar. Golfið er ákveðinn lífstíll, maður tekur kannski frí frá vinnunni en ekki frá golfinu,“ segir hún og bætir við að það sé ekki bara Skjálfandaflói og hvalaskoðun sem laði ferðamenn til bæjarins. „Það er búin að vera ótrúlega góð aðsókn hjá okkur af aðkomufólki í sumar og svæðið fengið afar jákvæðar viðtökur enda er Katlavöllur sannkölluð perla, Húsvíkingar geta verið stoltir af þessu svæði. Þessi aðsókn er okkur líka afar mikilvæg þar sem vallargjöldin eru stór hluti af tekjuöflun okkar,“ segir Birna að lokum.