Húsnæðisskortur í Grímsey yfir háannatímann - Jákvætt tekið í að bjóða lóðir undir smáhýsi
Hverfisráð Grímseyjar hefur óskað eftir að boðið verði upp á lóðir fyrir smáhýsi í eynni sem leyst gætu tímabundinn húsnæðisvanda yfir háannatíma. Skipulagsráð Akureyrar hefur tekið jákvætt í erindið.
Hverfisráðið óskaði jafnframt eftir því að haft yrði samráð við íbúa Grímseyjar um það hvernig best megi nýta það húsnæði sem til er á vegum bæjarins með þarfir íbúa og fyrirtækja í eynni í huga.
Þar megi skoða hvort skipta megi húsnæði upp í minni einingar þannig að það nýtist fleirum, t.d. yfir háannatímanna fyrir starfsfólk sem er tímabundið í eynni eða fyrir fólk sem vill prófa að búa í eyjunni og nýta sér fjarvinnuaðstöðuna sem er í Múla, til lengri eða skemmri tíma.
Mikill skortur er á húsnæði fyrir starfsfólk og stendur það fyrirtækjum eyjarinnar fyrir þrifum, upp á að geta veitt alla þá þjónustu sem þörf er á, að hafa ekki nægjanlegt starfsfólk m.a. með aukningu í komum skemmtiferðaskipa og lengra ferðamannatímabili.
Síðasta sumar komu 50 skemmtiferðaskip til Grímseyjar á tímabilinu maí til september og á næsta ári er þegar komnar 45 bókanir fyrir sama tímabil.
Fram kemur í bókun hverfisnefndar að síðasta sumar hafi verið óvenjulegt, m.a. vegna tafa á viðgerðum á ferjunni, vandamála við að flytja reksturinn frá Samskip yfir á Vegagerðina og bókunarsíðu sem ekki var í lagi. Það olli því að færri bókuðu ferð með ferjunni í ár miðað við fyrri ár. „Vandamál sem vonandi mun ekki hafa áhrif á næsta ári og því aðkallandi að leysa húsnæðismál fyrir næsta sumar.