Húsdýragarður í miðri sveitasælunni
Guðbergur Egill Eyjólfsson bóndi á Hléskógum í Eyjafjarðarsveit og konan hans Birna Kristín Friðriksdóttir hafa í nógu að snúast en auk þess að sinna hefðbundnum sveitastörfum hófu þau í fyrrasumar að haldi úti húsdýragarði á sumrin þar sem öll helstu húsdýr landsins eru til staðar. Hléskógar er staðsettur milli Grenivíkur og Laufáss í um tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá Akureyrarbæ.
“Við byrjuðum með þetta í fyrrasumar og það gekk bara ágætlega og það komu um 600 manns, við þurfum helst að fá fleiri gesti en þetta var bara fyrsta sumarið þannig að við vorum nokkuð sátt,” segir Guðbergur. Hann segir sumarið í ár hafa byrjað hressilega og margir gestir hafi komið og það sé að lifna við aftur eftir smá lægð. “Þetta datt ansi mikið niður þegar riginingarflóðið kom um daginn en er að lifna við núna með góða veðrinu.”
Guðbergur röltir um garðinn með gestum og hendir út fróðleiksmolum um dýrin og þá er einnig leyfilegt að koma við öll dýrin í garðinum. Í húsdýragarðinum er mjög sérstakur og einstaklega viðkunnalegur kiðlingur, sem er ekki eins og flestir kiðlingar eiga að sér. “Hann er alveg stórkostlegur, hann leitar alveg á manninn og ef hann sér mann þá byrjar hann að jarma, hann kallar á mann og hleypur svo til manns,” segir Guðbergur. Aðgangseyrir í garðinn er þúsund krónur fyrir fullorðna og sjöhundruð krónur fyrir börn. Innifalið í verðinu er kaffi og með því þar sem þau hjónin hafa komið sér upp kaffiaðstöðu. “Við erum búin að breyta hluta af íbúðarhúsinu í kaffihús og fólk getur gætt sér á kaffi og kökum eftir að hafa skoðað dýrin, þetta er í rauninni húsdýragarður og kaffihús. Einnig eru leiktæki í boði fyrir krakkana, þannig að krakkarnir geta verið að leika sér eftir að hafa skoðað dýrin og á meðan foreldrarnir eru að klára kaffisopann.”
Guðbergur segir flesta gestina vera innlenda ferðamenn en lítið sé um að erlendir ferðamenn leggi leið sína í garðinn. Auk þess að vera með húsdýragarð þá bjóða þau hjónin upp á gistingu. “Það er önnur íbúð á neðri hæð hússins sem er leigð í heild sinni eða hún leigð út sem stök herbergi. Þá er sameiginlegt eldhús, salerni og setustofa,” segir Guðbergur að lokum og bætir því við að allir þeir sem gista fá frítt í garðinn.