13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hús vikunnar: Viðarholt í Glerárþorpi – örlítil viðbót við fyrri pistil
Í lok hvers pistils kemur að öllu jöfnu fram, að ég taki við ábendingum og öðrum upplýsingum varðandi Hús vikunnar. Er mér að sjálfsögðu ljúft og skylt að koma þeim upplýsingum framfæri á þessum vettvangi. Kristján Skarphéðinsson hafði samband við mig og langaði að koma fram nokkrum atriðum varðandi Viðarholt í Glerárþorpi (birtist þ. 18. apríl sl.) og þáði ég það að sjálfsögðu með þökkum, og laugardaginn 11. maí hittumst við og áttum spjall um m.a. fólkið sem bjó í Viðarholti um og fyrir miðja síðustu öld.
Kristján Skarphéðinsson tengist Viðarholti gegn um móðurfjölskyldu sína, og er hann nefndur eftir Viðarholti, Kristján Viðar. Frændi hans var Kristján Guðni Tryggvason sem bjó í Viðarholti frá 1930 til dánardægurs og var jafnan kenndur við bæinn. Kristján Tryggvason og kona hans Ingiríður Jósefsdóttir munu hafa keypt býlið af þeim Kristjáni Þorlákssyni og Indíönu Jóhannsdóttur en þau síðarnefndu byggðu býlið um 1918. Móðurafi Kristjáns Skarphéðinssonar hét Tryggvi Kristjánsson en hann og Kristján Tryggvason í Viðarholti voru hálfbræður, sammæðra og ólust upp á Meyjarhóli á Svalbarðsströnd. Kristján Tryggvason í Viðarholti lést árið 1946, en Ingiríður bjó áfram í Viðarholti sem og synir þeirra, Jósef og Friðrik. Jósef var bifvélavirki en Friðrik var kennari og síðar skrifstofumaður m.a. hjá Valbjörku og Þórshamri.
Á sjöunda áratugnum fluttu þau Kjartan Sumarliðason og Stella Jónsdóttir að Viðarholti, ráku þarna myndarlegt fjárbú og áttu m.a. verðlaunahrút á Hrútasýningu 1974. Bjuggu þau Kjartan og Stella í Viðarholti fram yfir aldamót, en þá voru tún Viðarholtsbýlisins löngu komin undir íbúðabyggð í Hlíðahverfi. Hér birtist aftur myndin af Viðarholti, sem tekin er í júní 2012.
Þakka Kristjáni Skarphéðinssyni kærlega fyrir veittar upplýsingar og ánægjulegan fund á Bláu könnunni.