Hún er gefin fyrir drama

Friðarlilja (Spathiphyllum) 


Með mold undir nöglunum

Friðarlilja er gjarnan nefnd sem ein af þessum auðveldu pottablómum og því kjörin sem byrjendaplanta. Þrátt fyrir að vera auðveld í umhirðu þá þarf samt sem áður að hugsa vel um hana. Ef hana vanhagar um eitthvað þá lætur hún fljótt vita, t.d. ef hún verður þyrst þá fer hún í fýlu og laufin hanga niður á henni. Það er þó óþarfi að örvænta, hún er mjög fljót að taka gleði sína á ný þegar hún fær sopann. Bara muna að vökva alltaf með volgu og ekki meira í hvert sinn en sem nemur um fjórðungi af rúmmáli pottsins. Á sumrin nota ég daufa blöndu af Grænu þrumunni í 3.-4. hvert skipti.

Góð fyrir heilsuna

Sjálfur hef ég átt nokkrar friðarliljur í gegn um tíðina og sjálf umhirðan gengið að mestu áfallalaust. Þessi fagurgræna planta sem blómstar hvítum blómum á löngum stöngli er ekki aðeins fögur á að líta. Hún er frábær til þess að hreinsa loftið á heimilinu eða skrifstofunni. Hún sýgur óæskileg efni úr andrúmsloftinu og ber þau niður í ræturnar þar sem hún breytir þeim í næringu. Sagt er að hún sé sérstaklega hentug þar sem mikið er um raftæki.

Eipi

Ég vil hvetja ykkur öll sem eruð að byrja í hvers konar ræktun að gefast ekki upp þó að þið gerið mistök. Við gerum öll mistök og þau eru bara til að læra af þeim. Það getur dregið kjarkinn úr fólki þegar plöntum er lýst sem auðveldum í umhirðu, en svo steindrepast þær hjá manni. Ég hef lent í þessu og á eftir að lenda í þessu aftur.

 Vill ekki vera hvar sem er

Ég á orðið nokkuð myndarlegt safn af pottaplöntum af öllum stærðum og gerðum en flestar dafna þær mjög vel. Friðarliljan er hins vegar að valda mér höfuðverkjum með dramaköstum sínum. Eins og ég tók fram þá hef ég átt þær nokkrar og hefur almenn umhirða gengið nokkuð vel. Ég hef þurft að prófa fleiri staði til að hafa hana á, áður en draumastaðurinn var fundinn. Hún dafnar best í góðri birtu en blöðin brenna ef hún stendur í beinu sólarljósi. Þá er hún heldur ekki hrifin af köldum trekki. Ég mæli því ekki með að hafa hana nálægt svala- eða útidyrum. Hún þolir ágætlega hálfskugga en dafnar best á bjartari stöðum.

Það þarf að vökva þessa plöntu alloft á sumrin en gott er að draga úr vökvun á veturna. Alltaf þarf þó að varast að ofvökva ekki en það er líklega algengasta dánarorsök friðarliljunnar. Ræturnar eru mjög fljótar að rotna ef þær liggja lengi í vatni. Því er besta ráðið að hafa hana í loftríkri mold með góðu frárennsli svo vatnið leki strax af henni. Gott er að hafa í huga að pottahlíf sé það víð að maður komi fingri á milli.

Með mold undir nöglunum

Dramatísk umpottun

Best er að umpotta henni að vori og mikilvægt að tryggja gott frárennsli. Þurrkið af blöðunum með rökum klút. Umpottunin er það sem hefur valdið mér mestum vandræðum. Ég hef legið á youtube og ýmsum áhugamannasíðum til að finna sem bestar leiðbeiningar en alltaf tekst mér að klúðra þessu. Nýjustu friðarliljuna keypti ég í mars. Stór og falleg planta með mörgum blómum. Í apríl ákvað ég að umpotta henni þar sem ræturnar voru farnar að vaxa neðan úr pottinum.

Ég fór eins varlega og mér frekast var kostur. Skolaði ræturnar með volgu vatni og ákvað að skipta henni upp í tvo potta. Ég notaði hefðbundna pottamold frá Van Egmond sem fæst í Bónus en sú mold hefur reynst mér best í gegnum tíðina. Ég fylgdi leiðbeiningum af internetinu og blandaði ca 40% af fínu vikri frá flúðamold saman við moldina, til að tryggja frárennsli og að ræturnar fengju vel af súrefni. Ég veit ekki enn þá hvað ég hef gert vitlaust en elsku friðarliljan mín dramað yfir sig. Sú stærri steindrapst og sú minni er búin að vera í gjörgæslu. Að lokum skipti ég aftur um mold og setti aðeins minna af vikri. Plantan er enn frekar döpur (sjá mynd) en ég er bjartsýnn á að hún sé að jafna sig.

Munurinn sem ég finn helst eftir að ég setti vikur í moldina er reyndar sá að hún er lengur að þorna, þvert á það sem ég gerði ráð fyrir. Hún er einnig þéttari og erfitt er að stinga fingri niður í hana. Ég er þó með kenningu um hvað hefur farið úrskeiðis og er hún studd af þeim leiðbeiningum sem ég hef fundið. Mistökin mín eru líklega þau að ég setti hana strax í hefðbundna birtu eftir umpottun. Sennilega er betra að leyfa henni að jafna sig af sjokkinu í góðum skugga áður en hún fer á sinn rétta stað.

Nákvæmlega þetta er það skemmtilega við plöntuáhugamálið; að gera mistök og reyna finna út úr þeim. Það er fátt sem mér finnst skemmtilegra en planta sem dafnar vel eftir að hafa legið við dauðans dyr. Friðarliljan finnst mér algjörlega ómissandi á heimilið.

Með mold undir nöglunum er nýr liður í Vikublaðinu og verður opin á vef helgina eftir útgáfu hvers tölublaðs næstu vikurnar. Athugasemdir, ábendingar og hugmyndir eru velkomnar á netfangið: egillpall@vikubladid.is

 

Nýjast