30. október - 6. nóember - Tbl 44
Hugmynd að bók um brýr yfir Eyjafjarðará kviknaði í hjóltúr
„Ég get nákvæmlega tímasett hvenær hugmynd um þessa bók kviknaði fyrst hjá mér,“ segir Arnór Bliki Hallmundsson sem hefur gefið úr bókina Brýrnar yfir Eyjafjarðará. Hann bætir við að það hafi verið 29. ágúst 2020, þegar hann var í hjóltúr um fremstu byggðir Eyjafjarðar. Bókin er um 50 blaðsíður og líkt og nafnið gefur til kynna fjallar Arnór í bókinni um brýr yfir Eyjafjarðará, stiklað er á milli þeirra ellefu brúa sem yfir hana liggja.
Arnór átti fyrir ljósmyndir af nokkrum brúm yfir Eyjafjarðará, en ákvað að láta slag standa, og ljósmynda þær sem eftir voru. „Þá hugsaði ég með mér, að þetta væri upplagt að setja saman í bók, myndir af öllum brúnum og upplýsingar um þær. Ég byrjaði á því að setja myndirnar inn á vefsíðuna mína og fór svo seinna meir að dunda við að setja saman handrit,“ segir hann en Arnór, en síðan er á slóðinni arnorbl.blog.is.
Sá að bókaútgáfa var yfirstíganlegt verkefni
Ákvörðunina um að hafa brýrnar yfir Þverárnar tvær með tók hann um það leyti sem nýja brúin eðaræsið yfir Þverá ytri gaf sig í vatnavöxtum við upphaf hitabylgju, eftir kalt vor í júní árið 2021. Arnór átti handritið nokkurn veginn klárt snemma árs 2022 „en einhvern veginn fékkst ég ekki til að taka skrefið við útgáfu.“
Samstarf við Kristínu Aðalsteinsdóttur um útgáfu á bók um Oddeyrina segir hann að hafi leitt sér fyrir sjónir að bókaútgáfa væri bara vel yfirstíganlegt verkefni. „Og svo vill til, að elstu brýrnar yfir Eyjafjarðará, óshólmabrýrnar á Þverbrautinni, eru 100 ára í haust svo tímasetningin gat ekki verið betri,“ segir hann.
Lesandanum er fylgt meðfram Eyjafjarðará frá upptökum til ósa þar sem hverri brú er eignaður einn stuttur kafli. Hver brú fær 2-3 blaðsíður þar sem birtast myndir af brúnum ásamt stuttu söguágripi um þær í bland við fróðleikskorn um nánasta umhverfi þeirra.
Þannig er um að ræða nokkurs konar örbyggðalýsingu á svæðinu sem hverfist um Eyjafjarðará og brýrnar yfir hana. Hvorki er rakin ítarlega saga brúasmíða í héraðinu né eru nákvæmar tæknilegar lýsingar á mannvirkjum heldur fyrst og fremst svipmyndir af brúnum og nágrenni þeirra.
Merkisafmæli
Einna ítarlegustu umfjöllun í bókinni fá þó gömlu brýrnar þrjár á Þverbrautinni en þær eiga aldarafmæli á þessu ári, það er einmitt um þessar mundir sem 100 ár eru liðin frá því Eyjafjarðará var brúuð með brúnum þremur yfir óshólmana. „Tímasetningin á útgáfu bókarinnar gat því vart verið betri, það er gaman að minnast þessara tímamóta óshólmabrúnna með þessum hætti,“ segir Arnór. Ritið má því segja að sé nokkurs konar afmælisrit öldunganna þriggja á óshólmunum. Þá eiga tvær brýr yfir ána í fyrrum Saurbæjarhreppi níræðisafmæli í ár, svo það er annað ærið tilefni til þessarar útgáfu nú.