20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Húfur gegn einelti í Oddeyrarskóla
Dugnaðarprjónakonur í Oddeyrarskóla
Húfur gegn einelti á alla fyrstubekkinga
„Hver og ein húfa er með sínu móti, þær eru ólíkar, í mismunandi litum og með ólík mynstur til marks um að við erum öll ólík, hver og einn er einstakur,“ segir Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri í Oddeyrarskóla.
Baráttudagur gegn einelti var í gær, 8. nóvember og af því tilefni voru allir nemendur skólans kallaðir a sal þar sem vinalag Oddeyrarskóla var sungið og allir fóru með möntru gegn einelti. Hún hljóðar svo: Ég virði ólíka einstaklinga, ég sýni ábyrgð, virðingu og vináttu og ég legg ekki í einelti.
Annað árið sem prjónað er á alla í 1. bekk
Kristín segir þetta annað árið í röð sem börnum í fyrsta bekk ef gefin húfa á þessum alþjóðadegi gegn einelti. Hugmyndin sé fengin að láni frá Grunnskólanum í Bolungarvík sem einnig deildi uppskriftum af húfum með kollegum sínum nyðra. Á öllum húfunum stendur: Gegn einelti.
Við athöfn á sal Oddeyrarskóla í gærmorgun fengu nemendur einnig afhent armbönd frá skólanum, en þau hafa eldri nemendur þegar fengið. Einkunnarorð skólans; Ábyrgð, virðing, vinátta er letruð á armböndin sem og staðhæfingin „Ég legg ekki í einelti.“
Kristín segir að nemendur séu hvattir til að bera armböndin til að minna sig og aðra á að temja sér falleg og góð samskipti.