Hreinar tennur-heilar tennur

Rannveig Elíasdóttir
Rannveig Elíasdóttir

Tannburstun sem slík virðist afar ómerkileg athöfn og fæstum finnst hún sérlega áhugaverð og skemmtileg. Góð og rétt tannburstun er þó eitt af því mikilvægasta sem viðheldur tannheilsu okkar. Það að fara til tannlæknis er bara punkturinn yfir i-ið, það er heimavinnan sem skiptir öllu máli.

Frá því að fyrsta tönnin lítur dagsins ljós þarf að hefja tannburstun með flúortannkremi tvisvar sinnum á dag, eftir morgunmat og fyrir svefn. Flúor í hæfulegu magni, að lágmarki 1000ppm í tannkremi, tekur þátt í því viðgerðarferli sem stöðugt er í gangi við yfirborð tannanna auk þess sem það truflar starfsemi þeirra baktería sem valda tannskemmdum. Í innihaldslýsingu tannkremsins er hægt að lesa hve mikill flúorstyrkurinn er. Barnatannkrem með minna en 1000ppm flúorstyrk ætti ekki að nota. Ráðlagt magn flúortannkrems og styrkur er sem hér segir:

  • ¼ af nögl litlafingurs á barni yngra en 3 ára (1000-1350ppm F)
  • Því sem nemur nöglinni á litlafingri barns 3-5 ára (1000-1350ppm F)
  • 1 cm fyrir 6 ára og eldri (1350-1500ppm F)

Það er mikilvægt að börnin læri að þeim líði vel með hreinar og heilbrigðar tennur. Börn þurfa aðstoð við tannburstun til 10-12 ára aldurs, þó þeim finnist þau geta þetta alveg sjálf. Það getur þó verið sniðugt að barnið bursti fyrst og foreldri bursti svo yfir, þannig æfast þau í að bursta en fá góða tannburstun frá foreldrinu í leiðinni. Mikilvægt er einnig að huga að mataræði þegar kemur að tannheilsu. Eins og við vitum er sykur uppáhald baktería sem valda tannskemmdum, einnig eru súrir drykkir eitthvað sem ber að varast. Gosdrykkir, súrir ávaxtasafar og aðrir súrir drykkir valda glerungseyðingu. Glerungur sem hefur eyðst myndast ekki aftur. Tennurnar verða viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á tannskemmdum

Öllum börnum undir 18 ára aldri bjóðast fríar tannlækningar fyrir utan árlegt komugjald sem er 2500kr. Til að geta nýtt sér gjaldfrjálsar tannlækningar þurfa börn að hafa skráðan heimilistannlækni. Það er hægt að gera inn á sjukra.is, einnig getur tannlæknir séð um þessa skráningu.

-Rannveig Elíasdóttir, hjúkrunarfræðingur í heilsuvernd grunnskólabarna 

 

Nýjast