Horft um öxl

Ingibjörg Isaksen og Guðmundur Baldvin Guðmundsson.
Ingibjörg Isaksen og Guðmundur Baldvin Guðmundsson.

Nú þegar rúmlega sex vikur eru til bæjarstjórnakosninga er fróðlegt að horfa um öxl og rýna í það sem gert hefur verið hér á Akureyri á yfirstandandi kjörtímabili.

Meirihluti Framsóknar, L-lista og Samfylkingar ákvað strax í upphafi að leggja upp með samstarfssamning um þau mál sem mikilvægt þótti að vinna á yfirstandandi kjörtímabili.  Óhætt er að segja að afar vel hafi tekist til við að framfylgja samstarfssamningnum og flest þau málefni sem lagt var upp með hafa ýmist verið framkvæmd eða komin í vinnslu.

Við bæjarfulltrúar Framsóknar og nefndarfólk okkar höfum staðið í ströngu á kjörtímabilinu og höfum leitt vinnu við mörg mikilvæg mál.  

Þannig hefur umbreytingum á fjármálum og stjórnsýslu verið stýrt af formanni bæjarráðs, Guðmundi Baldvin.  Ráðist var í stjórnsýslubreytingar, bókhald bæjarins var opnað, skýrslugjöf til bæjarfulltrúa var stóraukin og stöðugleiki í rekstri hefur aukist svo fátt eitt sé nefnt af því sem lagt var upp með í upphafi kjörtímabilsins.

Í skipulagsmálum hefur mikið mætt á formanni skipulagsráðs Tryggva Má.  Nú nýverið samþykkti bæjarstjórnin samhljóða aðalskipulag 2018-2030 og í máli allra bæjarfulltrúa kom fram  , mikil ánægja með störf skipulagsráðs og verkstjórn formannsins en mikil samvinna einkenndi alla hans vinnu.

Á vettvangi Umhverfis- og mannvirkjasviðs hefur verið ráðist í viðamiklar framkvæmdir og hefur Ingibjörg Ólöf, formaður umhverfis- og mannvirkjasviðs, staðið í brúnni og fylgt þeim eftir. Umhverfismálin hafa einnig verið á hennar könnu en Akureyrarbær stendur framarlega í umhverfismálum þannig að eftir er tekið.

Já, sá meirihluti sem stofnaður var í upphafi kjörtímabilsins var skipaður sex bæjarfulltrúum sem höfðu það að markmiði að gera góðan bæ betri.  Það er skoðun okkar að vel hafi tekist til og við tvö sem eftir stöndum af þeim bæjarfulltrúum sem mynduðu meirihlutann erum sannanleg tilbúin að taka áfram slaginn með öflugum frambjóðendum Framsóknar og halda á þeirri vegferð að gera góða bæ enn betri.

 

-Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs

-Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi

 

Nýjast