Höldur fékk hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu
Á degi Ábyrgrar ferðaþjónustu á föstudag veitti forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu. Þetta var í fjórða sinn sem verðlaunin voru afhent. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega en fámenna athöfn í Grósku. Að þessu sinni féllu verðlaunin Höldi – bílaleigu Akureyrar í skaut.
Margar frambærilegar tilnefningar bárust dómnefnd að þessu sinni sem gefa tilefni til bjartsýni og trú á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi. Val dómnefndar var ekki auðvelt, en með þá sýn að geta boðið öllum ferðamönnum að aka um landið með visthæfum hætti er vel við hæfi að þakka frumkvöðlunum hjá Höldi – Bílaleigu Akureyrar sérstaklega fyrir þeirra framlag og veita þeim hvatningu til að takast á við þau verkefni og áskoranir sem framundan eru í áframhaldandi vegferð.
Þegar fyrirtæki eru valin til að hljóta hvatningarverðlaunin er horft til eftirfarandi þátta
- Hefur fyrirtækið birt markmið um ábyrgar ferðaþjónustu á vef sínum?
- Getur þú gefið dæmi um markmið fyrirtækisins um að ganga vel um og virða náttúruna?
- Hvernig mælir fyrirtækið öryggi ferðamanna og háttvísi í þeirra garð?
- Getur þú gefið dæmi um markmið fyrirtækisins um réttindi starfsfólks?
- Getur þú gefið dæmi um hvernig fyrirtækið hefur jákvæð áhrif á nærsamfélagið?
Í rökstuðningi dómnefndar sagði meðal annars:
„Markmið ábyrgrar ferðaþjónustu eru sett fram á heimasíðu fyrirtækisins ásamt þeim árangri sem fyrirtækið hefur áorkað. Má þar m.a. nefna að fyrirtækið hefur náð 85% endurvinnsluhlutfalli með flokkun og endurnýtingu og starfsfólk hefur gróðursett yfir 30.000 tré frá árinu 1995. Þegar kemur að öryggi leigutaka nýtir fyrirtækið appið „Your Friend in Iceland“ þar sem hægt er að miðla opinberum viðvörunum auk þess sem hægt er að hafa samband við leigutaka ef hætta steðjar að á ákveðnum svæðum í gegnum ökurita sem staðsettir eru í bílunum. Þá fá leigutakar upplýsingar um græn akstursráð þar sem hvatt er til góðrar umgengni um landið.
Höldur er með jafnlaunavottun og starfar samkvæmt vottuðu ISO 9001 gæðastjórnunarkerfi og ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi. Fyrirtækið rekur mannauðsskóla þar sem áhersla er lögð á jafnréttismál, öryggi- og heilsuvernd, fræðslu starfsmanna og þjálfun. Þá er einnig öllu erlendu starfsfólki boðin kennsla í íslensku þeim að kostnaðarlausu og fara námskeiðin fram á þeim tungumálum sem starfsfólk fyrirtækisins skilur.
Ísland hefur sett sér háleit markmið á sviði orkuskipta og hefur Höldur – Bílaleiga Akureyrar á undanförnum árum lagt áherslu á að auka hlutfall visthæfra ökutækja í bílaflota sínum sem og uppbyggingu hleðsluinnviða á starfsstöðvum víða um land. Í dag á fyrirtækið hátt í 300 rafbíla, 600 tengiltvinnbíla og 530 Hybrid bíla og nokkra Metan bíla. Meðalútblástur bílaflota fyrirtækisins hefur lækkað um 30% frá árinu 2007. Í samstarfi við Kolvið geta viðskiptavinir kolefnisjafnað þá kolefnislosun er tengist akstri þeirra á bílum frá fyrirtækinu. Þannig hefur fyrirtækið opnað möguleika fyrir alla viðskiptavini að leggja sitt af mörkum í þágu umhverfisins þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.“
Verkefninu um Ábyrga ferðaþjónustu hefur verið haldið úti frá 10.janúar 2017 en hátt í 200 fyrirtæki um allt land taka virkan þátt í verkefninu í gegnum fræðslufundi, vinnustofur og viðburði. Framkvæmdaaðilar eru Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar í samstarfi við FESTU, félag um samfélagsábyrgð.