20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
,,Höfum stillt upp spennandi ári með fjölbreyttum og áhugaverðum sýningum"
„Það verður erfitt að toppa síðasta ár en við reynum okkar besta,“ segir Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri. Safnið fagnaði 30 ára afmæli sínu í fyrra og var mikið um dýrðir í kringum þau tímamót. Aðsóknin jókst mjög mikið á árinu og aldrei hafa jafn margir gestir lagt leið sína í safnið, en sýning Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, naut mikillar hylli og komu margir víða að gagngert til að sjá hana. Fram undan er nýtt starfsár sem hófst formlega með opnun þriggja nýrra sýninga um liðna helgi.
Hlynur kveðst ánægður með hvernig til tókst á liðnu ári og fagnar aukinni aðsókn. „Vissulega hafði sýning Ragnars áhrif á gestafjöldann og eflaust hefur hún verið helsta aðdráttaraflið, en það var margt fleira og áhugavert í boði hjá okkur,“ segir hann.“
Nýtt starfsár er hafið og segir Hlynur að margt forvitnilegt verði í boði á safninu sem án efa muni vekja athygli. „Við höfum stillt upp spennandi ári með fjölbreyttum og áhugaverðum sýningum sem ég veit að munu vekja athygli. Við gerum ungum listamönnum hátt undir höfði, bjóðum upp á gjörningahátíð og erum þátttakendur í tveimur öðrum listahátíðum, sem allar hafa skapað sér nafn, og þá verður sýningin Sköpun bernskunnar á dagskrá tíunda árið í röð. Af því tilefni munum við gefa út bók um það líflega og mikilvæga verkefni,“ segir hann.
Gestir á opnun
Listahátíðirnar þrjár eru A! Gjörningahátíð,sem verður á sínum stað í október og nú haldin í tíunda sinn. Alþjóðlega dansvídeóhátíðin Boreal Screendance Festival er einnig á dagskrá ársins, en þar eru einnig í boði danstengdir viðburður og er Yuliana Palacios listrænn stjórnandi. Þriðja hátíðin er Northern Lights Fantastic Film Festival, þematengd kvikmyndahátíð þar sem sýndar verða hátt í 40 stuttmyndir. Sú hátíð fer fram í nóvember og er skipulögð af þeim Ársæli Sigurlaugi Níelssyni, Brynju Baldursdóttur og Marzibil Snæfríði Sæmundardóttur.
Á meðal sýninga sem opnaðar verða síðar á árinu má nefna áhugaverða sumarsýningu sem kemur frá Bremen í Þýskalandi með fjölda Fluxuslistamanna. Sýningin samanstendur af verkum unnum í mismunandi miðla sem öll fjalla um eða tengjast hvölum á einn eða annan hátt. Hin stóra sumarsýningin ber titilinn Er þetta norður? og þar taka þátt átta listamenn frá öllum Norðurskautslöndunum, frá Alaska til Síberíu. Þeirra á meðal eru listamenn sem hafa verið fulltrúar sinna þjóða á Feneyjatvíæringnum. Akureyri er mikilvægur hlekkur í norðurslóðanetinu og þessi sýning undirstrikar það. Er þetta norður? verður í fimm sölum Listasafnsins og mun standa fram í september.
Auk þessara samsýningaa verða fjölmargar einkasýningar með ólíkum listamönnum eins og Salóme Hollanders, Georg Óskari, Heiðdísi Hólm, Einari Fal Ingólfssyni, Jónasi Viðari og Fríðu Karlsdóttur. Þá segir Hlynur að áfram verði lögð mikil áhersla á fræðsluhlutverk safnsins og þjónustu við alla skóla bæjarins. Á þessu ári mun safnkostur Listasafnsins verða birtur almenningi á netinu en það hefur staðið lengi til og verið í undirbúningi varðandi skráningu og ljósmyndun listaverka.
Listasafnið hlaut á dögunum styrk frá Safnasjóði að upphæð 4,4 milljónir vegna þriggja viðburða, A! Gjörningahátíðar, skapandi fjölskylduleikinn Vangaveltur um myndlist og áðurnefndrar sýningar Er þetta norður? Auk styrks úr Safnasjóði fékk safnið styrk úr Listaverkasafni Valtýs Péturssonar upp á 1,5 milljónir króna en honum á að verja til kaupa á listaverkum eftir ungt myndlistarfólk og segir Hlynur það mikið fagnaðarefni.