20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hljóp 160 sinnum upp á Húsavíkurfjall
Hólmgeir Rúnar Hreinsson er grjótharður Þistilfirðingursem starfar sem trésmiður hjá Trésmiðjunni Rein á Húsavík þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni. Fyrir liðlega ári síðan strengdi hann óvenjuleg áramótaheit. Hólmgeir hét því að hlaupa 100 ferðir upp á Húsavíkurfjall og til baka á árinu sem nú er nýliðið. Eins og sönnum Þistilfirðingi sæmir er Hólmgeir þverari en færustu forystusauðir sveitarinnar og kom því aldrei annað til greina en að standa við orðin stóru.
Svona var umhorfs við útsýnisskífuna á toppi Húsavíkurfjalls þegar Hólmgeir hljóp síðustu ferðina upp á toppinn á árinu 2021.
Það gerði Hólmger svo sannarlega því þegar blaðamaður settist niður með honum yfir rjúkandi kaffibolla á nýja árinu, þá hafði hann lokið við að hlaupa 160 ferðir upp á Húsavíkurfjall árið 2021 og fór létt með það enda var hann búinn að standa við orð sín í byrjun ágúst en þá voru komnar 100 ferðir.
Kann ekki við malbikið
Hólmgeir sem er 42 ára stundar utanvegahlaup af miklu kappi og hefur gert það síðan 2012 þegar hlaupabakterían smitaðist yfir á hann. „Þá var ég orðinn vel þungur. Ég byrjaði fyrst á því að hjóla duglega en svo tóku hlaupin við þegar fór að snjóa meira. Hlaupin hafa alla tíð síðan verið viðloðandi mig þó ég hafi tekið pásur inn á milli. Og alltaf verið mest í utanvegahlaupum. Ég hef engan áhuga á að vera hlaupa eftir malbiki,“ segir Hólmgeir ákveðið og bætir við að ástæðan fyrir því að hann hafi byrjað að hlaupa hafi einfaldlega verið til að komast í betra form en hann var í.
„Það stefndi óðfluga í þriggja stafa tölu á vigtinni og kominn tími til að gera eitthvað í því. Annars hef ég aldrei pælt mikið í fæðinu, það er kannski helst það sem maður er að klikka á.“
Aðspurður hvað hafi drifið hann áfram í að strengja þessi óvenjulega áramótaheit svaraði Hólmgeir því til að hann hafi einfaldlega viljað ögra sér aðeins og gera eitthvað skemmtilegt í leiðinni en hann er mikil útivistarmanneskja.