Hlíðarfjall - Töfrateppið í nýjan búning

Yfirbyggingin veitir iðkendum skjól á köldum vetrardögum    Mynd  vefur Akureyrarbæjar
Yfirbyggingin veitir iðkendum skjól á köldum vetrardögum Mynd vefur Akureyrarbæjar

Starfsmenn skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli hafa lokið við að setja saman 63ja metra yfirbyggingu úr gegnsæjum einingum á hið svokallaða Töfrateppi. Yfirbyggingin myndar eins konar göng utan um færibandið og skýlir þeim sem það nota fyrir veðri og vindum.

Töfrateppið er ein vinsælasta skíðabraut Hlíðarfjalls. Það kostar ekkert að nota færibandið og það er mikið notað af þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á skíðum, jafnt ungum sem öldnum og einnig nota nemendur skíðaskólans þessa þægilegu brekku.

Um leið og yfirbyggingin veitir iðkendum skjól á köldum vetrardögum þá er hún líka vörn fyrir lyftubúnað meðan stormar og óveður ganga yfir fjallið. Í göngunum er LED-lýsing sem gefur lyftunni skemmtilegt yfirbragð. Framkvæmdirnar fólu einnig í sér að skipt var um færibands-teppið og öll lyftan var yfirfarin.

Starfsfólk Hlíðarfjalls hlakkar mikið til að hægt verði að opna skíðasvæðið fyrir veturinn.

Það var  www.akureyri.is sem fyrst sagði þessa frétt.

Nýjast