Hlíð - Margra mánaða tafir á framkvæmdum með auknu álagi á allt kerfið
„Þetta er algjörlega óþolandi staða og bitnar á þjónustu við aldraða, þeim sem síst mega við því,“ segir Teitur Guðmundsson forstjóri Heilsuverndar sem rekur Heilsuvernd hjúkrunarheimili á Akureyri.
Viðgerðir hafa staðið yfir á húsnæði Hlíðar á Akureyri frá s.l. hausti, m.a. á þaki og gluggum en samhliða stóð til að vinna nauðsynleg verkefni innandyra og komast með því móti hjá óþarfa raski á högum íbúa heimilisins. Stefnt var að því að íbúar yrðu fluttir eftir því sem verkinu miðaði áfram og þannig komist hjá frekari lokunum rýma.
Teitur segir að frá því verkefnið hófst í haust hafi verið góð samvinna milli Heilsuverndar og Framkvæmdasýslu ríkisins sem bauð verkefnið út og hefur það á sinni könnu. Tafir hafa orðið þar sem ríki og sveitarfélag hafa ekki komið sér saman um kostnaðarskiptingu verksins.
Teitur Guðmundsson forstjóri Heilsuverndar
Í vetur sem leið þurfti að loka 20 rýmum vegna framkvæmdanna og stefnir í frekari lokanir, allt að 10 rýma til viðbótar. Miklar tilfærslur hafa verið innnanhúss á starfsseminni til að mæta þessari áskorun, sem ekki sér enn fyrir endann á.
Verulega ósátt við þessa stöðu
„Ég var að vona að ríki og sveitarfélag hefðu getið haldið dampi í verkefninu og reyni að leysa skiptingu kostnaðar hið allra fyrsta. Lokanir á rýmum fyrir aldraða valda miklu álagi á alla innviði heilbrigðisþjónustu á Akureyri.Þessi seinagangur þýðir að það verða margra mánaða tafir á þessu og langt í land með að hægt verði að fullnýta þau rými sem til staðar eru á heimilinu.
Við erum verulega ósátt við þetta stöðu,“ segir Teitur.