Hlekkir neysluhyggjunnar
Á uppvaxtarárum mínum og fram á fullorðinsár brýndi faðir minn fyrir mér að það væru ekki peningar sem færðu fólki hamingju. Þessa speki hafa líklega flestir fengið að heyra einhvern tímann á sinni lífsleið. Ég samþykkti þessa speki og þóttist lifa eftir henni en inni í mér blundaði alltaf draumur um mikil efni.
Nú á vordögum tók þankagangur minn róttækum breytingum; mig langaði eiginlega ekki lengur að eignast mikla peninga. Hvað það var nákvæmlega sem orsakaði þessa hugarfarsbreytingu er ég ekki alveg viss um. En í nokkrar vikur nú í vor opnuðust augu mín allsvakalega fyrir óréttlætinu sem líðst í heiminum. Það voru óbærilegar vikur. Ég ætlaði að tapa vitinu yfir misskiptingunni og það kom að því að ég þurfti eiginlega að loka augunum að nokkru leyti aftur, til þess eins að eiga hugarró. Því má kannski segja að heimsins óréttlæti ásamt öðrum þáttum, eins og margra ára lestur á ritum Halldórs Laxness og kenningum Karl Marx hafi leitt mig að þessari hugarfarsbreytingu.
En ofan á þessa þætti var það að endingu hinn mikli heimsfaraldur, sem nú skekur mannkynið, sem var kornið sem fyllti mælinn. Þetta gerði það semsagt að verkum að ég þráði ekki lengur mikil efni og fleiri hluti heldur áttaði ég mig á því að ég get verið hamingjusamur með það sem ég á nú þegar. Ég þarf ekki meira. En hvað grundvallar hamingju okkar? Flestir vilja gott og öruggt heimili, mat, menntun, heilbrigðisþjónustu, ferðafrelsi, lýðræði, tíma til að sinna áhugamálum, aðgang að náttúru og tíma til allskyns sköpunar svo eitthvað sé nefnt. Við vitum öll að dauðu hlutirnir skilja ekki eftir sig bestu minningarnar. Það eru frekar stundirnar með fjölskyldu og vinum, stundirnar sem við eyðum í náttúrunni eða á tónleikum sem veita okkar hvað mesta ánægju. Hvers vegna kaupum við þá allt þetta dót? Eins og kom fram hér áður hefur heimsfaraldurinn haft mikil áhrif á skoðanir mínar og lífspeki. Núna hefur nefnilega enn og aftur komið í ljós hversu veikt efnahagsmódel heimsins er ― hinn „frelsandi kapítalismi.“
Ég lít svo á að við séum flest öll hlekkjuð kapítalismanum með ógnarsterkum hlekkjum neysluhyggjunnar, enda er hún einn af drifkröftum vestræns samfélags. Við kaupum og kaupum vegna þess að við teljum okkur þurfa að eignast allskyns óþarfa. Eins og neysluhyggjan keyrir áfram kapítalismann þá er neysluhyggjan knúin áfram af lífsgæðakapphlaupinu sem við könnumst flest við. Í kappi við náungann viljum við flottari bíla, nýrri hjól, stærri sjónvörp, stílhreinni eldhúsinnréttingar, dýrari föt o.s.frv. Við teljum okkur trú um að við þurfum alla þessa hluti til að vera hamingjusamari. Þó að það sé gott og gilt að kaupa eitthvað sem mann langar í þá verður maður að vega og meta hvað maður virkilega þarf og hvað ekki.
Því meira sem maður eignast, því erfiðara verður oft að meta þetta og neyslan magnast enn meir. Nýtt götuhjól leiðir af sér fjallahjól og flottari hjólafatnað, nýr bíll leiðir af sér rúmbetra hjólhýsi og eldhúsinnréttingin leiðir af sér nýjar flísar á baðið. Við viljum nýjan sófa og fleiri múmínbolla, nýjan skenk, stærra hús, meiri merkjavöru, rafmagnshlaupahjól og trampólín. Svona rúllar þetta stanslaust. En því er nú eitt sinn þannig varið að sú gríðarlega velmegun, sem við mörg hver lifum við, hefur að vissu leyti blindað okkar. Í gegnum lífsgæðakapphlaupið og neysluhyggjuna hefur kapítalismanum tekist að sannfæra okkur um að við þurfum allskonar dót og drasl. Á meðan við trúum því að við þurfum þennan óþarfa erum við blind fyrir raunverulegum hörmungum utan okkar þægindaramma. Vegna þessa þurfum við á hugarfarsbreytingu að halda.
Mig dreymir um heim þar sem við hjálpumst að. Um heim sem ekki er drifinn áfram af gróðrahyggju, verðbréfabraski, sýndarsamkeppni og tilgangslausri neyslu heldur af samhjálp, samkennd, hófsamri samkeppni, virðingu við umhverfið og síðast en ekki síst: nytsemi. Eitt fyrsta skrefið í átt að betri heimi ― heimi án fátæktar, hungursneyða, rányrkju, arðráns og loftslagsbreytinga er skref út úr því neyslumynstri sem við erum föst í. Þá fyrst opnast augu okkar. Sjálfur er ég stutt á veg kominn á þeirri vegferð en reyni að bæta mig dag frá degi. Í 26 ár seldi heimurinn mér þá hugmynd að grundvöllur hamingju og velferðar væri gróði; meri peningar og fleiri eignir. Og að heimurinn virkaði ekki án þess að einhverjir græði. Í tæp 26 ár var ég blindur og lét ljúga að mér. Ekki lengur. Pabbi hafði rétt fyrir sér.
Ég skora á Frey Brynjarsson, dreng einn góðan úr Eyjafirði, að taka við pennanum.
-Bjartur Aðalbjörnsson-varaþingmaður