6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Hlaðvarp um Huldu skáldkonu komið út
Í dag, 10. apríl komu út tveir hlaðvarpsþættir um Huldu skáldkonu
Tónlistarkonurnar Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir unnu þættina upp úr dagskrá sem þær fluttu víða um land árið 2018. Í þáttunum er blandað saman tali og tónum, sagan sögð af ævi og störfum Huldu, tónlist flutt við texta hennar og ljóð eftir hana lesin.
Aðrir tónlistarflytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonika og Tómas Leó Halldórsson kontrabassi.
Upptökustjóri tónlistar er Haukur Pálmason og var tónlistin tekin upp í Akureyrarkirkju og K21 Studios í janúar og febrúar 2023.
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind fæddist þann 6. ágúst 1881 og lést 10. apríl 1946. Hún skrifaði ljóð og prósa undir skáldanafninu Hulda. Eitt þekktasta ljóð hennar var ættjarðarljóðið Hver á sér fegra föðurland úr ljóðaflokknum Söngvar helgaðir þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní 1944, samið í tilefni af lýðveldisstofnuninni 1944 og var annað tveggja ljóða sem vann samkeppni um hátíðarljóð.
Hægt er að hlusta á þættina á helstu streymisveitum. Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra.