Hjarta Húsavíkur slær innan tíðar

Mynd/epe
Mynd/epe

Stórfelldar framkvæmdir í og við Húsavíkurkirkju hafa staðið yfir undanfarið en þeim er nú  óðum að ljúka. Óhætt er að segja að kirkjan og allt útisvæði hennar hafi fengið talsverða andlitslyftingu. Framkvæmdum við kirkjuturninn er lokið og útisvæðið er vel á veg komið en þar hefur verið hugsað út í aðgengi fyrir alla og gera allt svæðið opnara fyrir almenning. Aðeins eru smá „fíniseringar“ þar eftir eins og formaður safnaðarnefndar orðar það.

Verkefnið hefur farið talsvert fram út áætlun en upphaflega hljóðaði áætlun upp á 42 milljónir króna. Formaður sóknarnefndar, Helga Kristinsdóttir segir að vel megi við una miðað við hækkanir í samfélaginu. Ætla megi að heildar kostnaður vegna framkvæmdina fari fast að 80 milljónum  þegar upp verði staðið.

Aðspurð um hvenær framkvæmdum ljúki segir hún að það sé loks farið að sjá fyrir endann á þessu. „Þetta er alveg eins og þegar maður er að flytja og heldur að maður sé að fara flytja og heldur að allt sé tilbúið, þá er kannski mánuður eftir. Það eru eftir svona fíniseringar hér og þar,” segir hún en í vikunni var steypt.

 Steypuvinnu lokið

Steypuvinnu lauk í síðustu viku þegar kirkjutorgið sunnan við kirkjuna var steypt upp en um er að ræða skábraut sem jafnframt veitir betra aðgegni fyrir hreyfihamlaða að kirkjunni. „Nú þegar því er lokið þá er í rauninni ekkert sem er eftir nema fíniseringar hér og þar. Kansteinar hér og þar við moldar eða malarbeð og setja upp styttu og svona frágangur eins og að setja stiklur á einnig graseyjunni, einni af þremur,“ útskýrir Helga og bætir við að Björgunarsveitin Garðar eigi eftir að koma upp minnismerki á lóðinni.

 Leita að frekari fjármögnun

Bensi

Helga segir að samkvæmt áætlun sem sett var fram sé útlit fyrir að kostnaðurinn fari langt með að tvöfalda sig. „Þetta fer allt upp undir 80 milljónir króna,“ segir hún.

Helga segir að enn vanti þó nokkuð uppá til að fjármagna framkvæmdirnar en Hollvinasamtök kirkjunnar hafi unnið mikið og óeigingjarnt starf við að styrkja þetta. „Það vantar fjármuni til áframhaldandi fegrunaraðgerða á safnaðarheimilinu Bjarnahúsi, það er bara ákall eftir fjármunum. Við erum að sækja þetta í sjóði og til sveitarfélagsins. Svo höfum við þurft að taka lán fyrir hluta framkvæmdanna en það er eins og með allt að kirkja þarf ekki að eiga allt skuldlaust frekar en aðrir. Hitt er annað að við hölum bara áfram að sækja um styrki og þá sérstaklega til kirkjunnar. Við eigum enn þá inni 26 milljónir sem við fengum frá kirkjunni í framlag en lántakan er um 35 milljónir sem við erum búin að taka vegna framkvæmdanna, við förum kannski langt með að greiða það. En það þarf að halda áfram og betur má ef duga skal.

 Alltaf planið að taka lóðina í gegn

Helga segir að þegar fyrir lá að fara þyrfti í framkvæmdir á kirkjunni þá hafi verið tekin ákvörðun um það að gera um leið endurbætur á svæðinu í kring og tengja lóðin betur Bjarnahúsi. Bætt aðgengi hafi líka staðið lengi fyrir þrifum. „Það þurfti í framkvæmdir á kirkjunni og við kláruðum það, kirkjuturninn er tilbúinn og við töluðum allan tímann um að það væri kirkjan og umhverfi hennar sem ráðast þyrfti í að gera úrbætur á. Turninn var í fyrsta sæti og við kláruðum hann fyrir 20-25 milljónir, svo var það þetta með aðgengi fyrir alla og svo Bjarnahúsið. Þetta hefur farið langt fram úr kostnaðaráætlun en það erfitt að koma í veg fyrir það miðað við aðstæðurnar sem uppi eru í samfélaginu,“ segir hún og nefnir einnig að ýmislegt hafi komið í ljós eftir að framkvæmdir hófust.

„Svo get ég líka nefnt í þessu sambandi að þegar verið er að taka upp eitthvað sem er svo gamalt, bæði niðurföll, holræsi og annað. Þegar verið er að grafa í sundur, þó það hafi ekki átt að taka það upp, þá óneitanlega gerir maður það þegar í ljós kemur ástandið á því. Ég held að þegar upp er staðið þá getum við vel við unað,“ segir Helga að lokum.

Nýjast