Hjálmar Bogi sækist eftir 1. sæti á lista Framsóknar

Hjálmar Bogi Hafliðason.
Hjálmar Bogi Hafliðason.

Hjálmar Bogi Hafliðason sækist eftir því að leiða lista Framsóknar & félagshyggju í Norðurþingi í sveitarstjórnarkosningunum sem fara fram 14. maí nk. Hjálmar Bogi hefur starfað á vettvangi Norðurþings frá árinu 2006, setið í sveitarstjórn kjörtímabilin 2010-2014 og 2018 til dagsins í dag.

Í tilkynningu frá Hjálmari Boga segir hann að starf í sveitarstjórn byggist á samvinnu og að það sé bæði krefjandi og spennandi.

Tilkynningu Hjálmars Boga má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Starf í sveitarstjórn byggist á samvinnu.

Seta í sveitarstjórn er fjölbreytilegt starf, bæði krefjandi og spennandi. Fulltrúi í sveitarstjórn er hluti af æðsta stjórnvaldi sveitarfélags og tekur þátt í ákvörðunartöku um öll helstu mál sem varða sveitarfélagið. Það er spennandi að fá tækifæri til að móta umhverfi sitt með þátttöku í sveitarstjórn.
Kjörinn fulltrúi þarf að hafa í huga að hann er ekki kjörinn til setu í sveitarstjórn til að vera sérfræðingur í málefnum sveitarfélagsins heldur sem leikmaður og fulltrúi íbúa sveitarfélagsins til að standa vörð um hagsmuni þeirra. Það felur í sér mikla ábyrgð að vera kjörinn fulltrúi íbúa til að stýra sveitarfélagi. Það er skylda sveitarstjórnarmannsins að leitast við að taka afstöðu til mála út frá mati á heildarhagsmunum.
Trúverðugleiki sveitarstjórnarmannsins snýst að mörgu leyti um það hversu vel honum tekst að ná jafnvægi milli mismunandi krafna og væntinga íbúa.
Grundvallarverkefni sveitarstjórnarmanna eru að:
• móta markmið og stefnu fyrir starfsemi og rekstri sveitarfélagsins og framþróun þess og hafa eftirlit með að þeim sé fylgt
• forgangsraða ráðstöfun fjármuna og mannafla sveitarfélagsins,
• taka á álitaefnum sem koma upp og varða sveitarfélagið
• hafa samráð og skipuleggja ákvörðunarferla, þ. á m. þátttöku íbúa í ákvörðunartöku.

Pólitík byggist á mismunandi skoðunum og afstöðu og það verður að vera svigrúm fyrir ágreining. Hins vegar skiptir miklu máli að byggja upp gagnkvæmt traust. Mikilvægur þáttur í því er að menn sýni hvor öðrum gagnkvæma virðingu í framkomu og orðum og að allir fulltrúar í sveitarstjórn standi jafnt að vígi varðandi upplýsingagjöf um mál sem eru til meðferðar hverju sinni. Með gagnkvæmu trausti skapast forsendur fyrir pólitísku samstarfi og samstöðu sem getur reynst nauðsynleg til að ná niðurstöðu.
Meginhlutverk sveitarstjórnarmanna er ákvörðunartaka. Sveitarstjórnarmönnum ber að hafa frumkvæði og taka, f.h. samfélagsins í sveitarfélaginu, þátt í ákvörðunartöku í sveitarstjórn út frá heildarhagsmunum og á grundvelli mats á forgangsröðun möguleika og gilda.

Ég hef starfað þessum vettvangi Norðurþings síðan 2006, í sveitarstjórn 2010 – 2014 og síðan 2018 til dagsins í dag og sækist eftir að leiða B-lista framsóknar&félagshyggju áfram í næstu kosningum
.

Nýjast