Hjá okkur Grindavíkingum hefur öllum spilum verið kastað upp í loft og framtíðin í uppnámi

Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur er úr Fnjóskadal, hún bjó lengi á Akureyri og í Miðhvammi í Að…
Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur er úr Fnjóskadal, hún bjó lengi á Akureyri og í Miðhvammi í Aðaldal. Hún flutti til Grindavíkur árið 2018, hafði þá kynnst manni sínum Jens Sigurðssyni sem er borinn og barnfæddur Grindvíkingur. Líf þeirra verður héðan í frá ávallt fyrir eða eftir rýmingu.

Dagur 5 eftir rýmingu. Já hér eftir mun líf mitt alltaf verða - fyrir og eftir rýmingu Grindavíkur. Atburðurinn sem stendur yfir verður hluti af örlögum okkar sem þar búum. Áðan fór ég í búð á Selfossi og keypti mjólk, jógúrt og kvöldmat og hugsaði um að flestir af fólkinu sem var þar að snúast, eins og við Jens, er bara sem betur fer í sínu venjulega lífsmunstri. Hjá okkur Grindavíkingum hefur öllum spilum verið kastað upp í loft og öll framtíð er í uppnámi.

Tókum sitt hvorn bollann

Það er gott að heyra af samkennd fólks en það þarf meira en orð. Nokkrir aðilar hafa stigið fram og boðið meira en orð, þannig fékk ég sundbol, handklæði og aðgang í sund ókeypis á Selfossi enda ekki með sturtuaðstöðu eins og er þar sem ég lenti á flóttanum. Í sturtunni fékk ég sjampó í lófann frá ungri stúlku sem var þar um leið og ég. Við höfum komist heim og náðum að taka töluvert af fötum og ég tók myndlistardótið mitt en mín listaverk og önnur listaverk okkar Jens og munir, ættargripir og bókmenntir eru eðlilega á hættusvæðinu. Við tókum sitt hvorn bollann en verðmætt og yndislegt 60 ára safn af borðbúnaði sem við matgæðingarnir eigum saman er á hættusvæðinu, bara svona til dæmis.

Ekki heilsusamlegt fyrir taugakerfið

Það er mjög vafasamt að búseta verði örugg í Grindavík í nánustu framtíð hvað þá að það verði heilsusamlegt fyrir taugakerfi fólks að búa þar. Það geta ekki talist heilsusamlegar aðstæður að fylgjast með því dag og nótt hvort þurfi að taka alla muni niður á gólf vegna skjálftahættu, finna annan stað til að sofa á vegna svefnleysis af skjálftum, skoða af ábyrgð og áhyggjum aftur og aftur hvort stefni í rýmingu eða nýtt sig hafi opnast.

Allir sem búa í Grindavík hafa sárar áhyggjur af sinni framtíð, félagslega og fjárhagslega. Margir líka atvinnulega. Margt þyrfti að gera strax, gefa út yfirlýsingu um að hvert heimili í Grindavík fengið ákveðna upphæð sem munar um í búsetustyrk næstu 3-9 mánuði þar sem fólk hefur ekki heimild til að búa á heimilum sínum. Stöðva gjaldtöku í Grindavík og bæta Grindavíkurbæ tekjutapið upp með öðrum hætti, til dæmis er varðar fasteignagjöld, leikskóla og tómstundir barna. Bara svona til dæmis.

Lifrarpylsa og rautt teppi

Hér í kotinu okkar á Þingvöllum eru komnir tveir lifrarpylsukeppir í pott sem bjargað var en við hjúin vorum nýlega búin að gera lifrarpylsu til ársins. Annars er maturinn okkar eðlilega í frysti heima á hættusvæðinu, þar er enn rafmagn hvað sem verður. Blómin mín 15 og þar með havírósirnar sem ég hef lagt mig fram um að rækta og 16 ára gamla drekatréið sem búið hefur með mér á Akureyri, í Aðaldal, Reykjavík og Grindavík, eru á dauðadeildinni. Mögnuð vinkona á Akureyri er hins vegar búin að pakka ýmsu niður í kassa til að senda mér til að hlúa  að mér þegar flest sem ég á er á hættusvæðinu, ég veit að í honum er hlýtt rautt teppi. Lífið er sannarlega dýrmæt gjöf og ótal ævintýri, hvar og hvað verður næst ???

 

Kristín Linda

Kristín Linda Jónsdóttir ólst upp í Fnjóskadal í Þingeyjarsveit. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, starfaði í banka  og var blaðamaður á Akureyri um 15 ára skeið. Þá vatt hún sínu kvæði í kross og gerðist kúabóndi í Miðhvammi í Aðaldal. Hún lét mjög til sín taka í félagsmálum kúabænda, sat í stjórn Landssamband kúabænda og var formaður Félags þingeyskra kúabænda. Hún starfaði af lífi og sál við kúabúskapinn í 15 ára, en eftir fertugt lauk hún námi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands og er nú klínískur sálfræðingur starfar sjálfstætt hjá eigin fyrirtæki, Huglind ehf í Reykjavík. Vorið 2018 kynntist hún Jens Sigurðssyni yfirvélstjóra á Sighvati GK57 sem er Grindvíkingur í húð og hár. Þau keyptu Norðurhóp 44 í Grindavík vorið 2022 og hófu þá sambúð þar. Pistilinn skrifaði Kristín Linda á facebook og gaf góðfúslegt leyfi fyrir birtingu.

 

Nýjast