20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Heimsóttu samstarfsskóla í Finnlandi
Tónlistarskóli Húsavíkur fór haustið 2022 af stað með afar áhugavert verkefni sem miðar að því að gera tónlistarnám aðgengilegra fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir. Verkefnið er að finnskri fyrirmynd en mjög góð aðsókn hefur verið í námið. „Jú, mjög góð aðsókn í þetta hjá okkur. Það eru 16 nemendur sem hafa skráð sig. Þetta eru notendur miðjunnar og fleiri íbúar sveitarfélagsins,“ segir Guðni Bragason, skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur.
Í Finnlandi er starfræktur tónlistarskóli sem heitir Music Center Resonaari og er sérstaklega ætlaður fólki með sértækar stuðningsþarfir. Skólinn býður í dag yfir 300 nemendum þjálfun á hljóðfæri og kennslu í samspili en nemendur fá tvær kennslustundir í viku. Skólinn kemur einnig að þróun tónlistarnáms í Finnlandi í samstarfi við sérfræðinga og tónlistarkennara í heimalandinu og erlendis. Guðni segir að finnski skólinn hafi miðlað að þekkingu sinni við skipulagningu námsins á Húsavík.
Frítt föruneyti til Finnlands
Nú nýverði fór allt starfsfólk Tónlistarskólans á Húsavík í heimsókn til Finnlands ásamt starfsfólki Miðjunnar hæfingar, Framhaldsskólans á Húsavík og Borgarhólsskóla. Þar skoðaði hópurinn meðal annars starfið sem unnið er í Music Center Resonaari.
„Þetta er sem sagt tónlistarskóli sem er búinn að vera starfandi frá árinu 1995 og eru eingöngu að kenna einstaklingum með þroskaskerðingar og aðrar fatlanir,“ segir Guðni og bætir við að þetta hafi byrjað markvisst á Húsavík fyrir um ári síðan.
Mjög góð aðsókn
„Það hefur verið mjög góð aðsókn hjá okkur og það eru allir áfram með okkur nú í haust sem byrjuðu í fyrra. Við fengum Þekkingarnet Þingeyinga til að starta þessu sem sérverkefni en svo eru þau bara núna í þessu á eigin vegum sem nemendur Tónlistarskólans,“ útskýrir Guðni.
Hann segir að enn sé verið að leggja áherslu á einstaklingskennslu en sé hægt og rólega að breytast. „Við erum svona að þoka okkur í meiri hópavinnu núna. Eins og þeir vinna þetta úti, þá er verið að vinna þetta mikið í hópum þarna í Finnlandi. Þeir koma þeim af stað og svo halda þau áfram í hópum.“
Gott veganesti frá Finnlandi
Guðni segir að ferðin til Finnlands hafi verið afar gagnleg. Við vorum í Helsinki frá þriðjudegi til föstudags og heimsóttum m.a. skóla sem heitir International School of Music. Það er skóli sem er einnig að þjónusta innflytjendur sem eru ekki með finnsku sem móðurmál, Þar er alls konar í gangi. T.d. námskeið fyrri kornabörn eða um 3 mánaða börn, en það snýst auðvitað að mestu leiti um foreldrana, en skemmtilegt. Við fórum nú ekki djúpt í það. Þá eru þau að læra söng og eitthvað og þá er lallað fyrir börnin. Annars er þetta bara Tónlistarskóli eins og við erum með hér á Húsavík sem bíður upp á námsleiðir fyrir ung börn og alveg upp í fullorðna,“ segir Guðni.
Skoðuðum einn stærsta skóla Evrópu
Svo fórum við í heimsókn í Síbilíusar Akademíuna. Það er einn stærsti og virtasti tónlistarháskóli í Evrópu. Það var mikill heiður að fá að kíkja þangað og skoða. Finnarnir er mjög framarlega í öllu þessu og höfðingjar heim að sækja,“ segir Guðni og bætir við að hópurinn hafi tekið með sér gott veganesti frá Finnlandi.
„Það var mikið sem við tókum með okkur frá þessari ferð enda höfum við verið í góðu samstarfi við Resonaari skólann sem við erum í samstarfi við . Þetta var mikil upplifun fyrir okkur öll og opnaði margar dyr. Ekki bara fyrir þennan hóp með fötlun heldur sáum við þarna aðferðir sem hægt er að nota í kennslu fyrir alla,“ segir Guðni að lokum.