Heimsókn fjármálaráðherrans

Fyrir nokkru bar það til tíðinda að nýr fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, sem er einn af nýlega kjörnum þingmönnum NA kjördæmis fyrir Viðreisn, sem er afsprengi Sjálfstæðisflokksins, heimsótti Akureyri og auglýsti almennan fund á kaffihúsi hér í bæ.

Fundarefnið var að mestu einræða ráðherrans þar sem hann kynnti fundarmönnum, sem voru fáir, helstu áherslur Engeyjarríkistjórnarinnar á komandi kjörtímabili.

Ekkert kom þó fram hjá fjármálaráðherranum um stórmál, sem brennur mjög á fólki eins og skammarlegan aðbúnað að ellilífeyrisþegum en allt þetta fólk í tugum þúsunda talið býr við lífsskilyrði, sem eru undir fátækramörkum.

Þetta fólk á ekki fyrir mat, lyfjum eða heimsóknum til lækna svo eitthvað sé nefnt né önnur sjálfsögð mannréttindi. Þetta er samt einmitt fólkið, sem í svita síns andlits hefur hjálpað hvað mest til við farsæla uppbyggingu þessa nú velstæða þjóðfélags. Ráðherrann neitaði að tjá sig um þetta grafalvarlega mál þó eftir væri gengið og hafi hann skömm fyrir ( þótt ég efist um að hann kunni að skammast sín).

En óforskömmugheit ráðherrans birtust þó í því þegar hann lýsti því yfir að hann væri á móti því að opna neyðarbrautina á Reykjavíkuflugvelli. Þessu vogaði hann sér að lýsa yfir í heimabæ sjúkraflugsins á Íslandi þ.e. Akureyri. Þvílíkt fáheyrt og óforskammað. Margir telja að stutt geti verið í næstu kosningar og þá hljóta allir kjósendur í NA kjördæmi að minnast þessara orða fjármálaráðherrans Benedikts Jóhannessonar.

Nýjast