Heimir vill leiða Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri
Heimir Örn Árnason, fyrrum handboltamaður og stjórnandi í Naustaskóla á Akureyri, hefur tilkynnt að hann gefi kost á sér í fyrsta sæti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Frá þessu greinir hann á Fjasbókarsíðu sinni.
„Allir þeir sem þekkja mig vel vita að ég er ákveðinn, sanngjarn og mikill keppnismaður. Mannleg samskipti er einn af mínum helstu styrkleikum og hefur það hjálpað mér mikið í öllum mínum störfum hingað til. Það hefur blundað í mér í mörg ár að bjóða mig fram í sveitarstjórnarkosningunum og nú ákvað ég að láta vaða.Ég tel mig eiga fullt erindi í bæjarstjórn Akureyrar. Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og sjálfboðastörfum. Undanfarin fjögur ár hef ég starfað sem stjórnandi í Naustaskóla á Akureyri og eru fræðslumál og lýðheilsumál mér mjög kær. Einnig hef ég verið formaður unglingaráðs KA/Þór og KA í handknattleik undanfarin sex ár,“ skrifar Heimir á Facebook.