Heimamenn í fararbroddi hjá LA í vetur

Samkomuhúsið á Akureyri.
Samkomuhúsið á Akureyri.

Heimamenn verða í fararbroddi á sviði hjá Leikfélagi Akureyrar að sögn Jóns Pálsl Eyjólfssonar, leikhússtjóra LA. Ekki verður neinn fastráðinn leikari við LA þetta leikárið. Hjá LA er aukin áhersla á frumsköpun leikskálda af svæðinu og að nýta krafta þess sviðslistafólks sem hér er búsett.

„Draumurinn er að við náum að ráða hér aftur leikhóp eins og var upphaflega árið 1973. Atvinnuleikhús byggist á leikhópi en því miður höfum við ekki nægt fjármagn og þetta er fyrsta árið sem ég get ekki fastráðið neinn leikara,“ segir Jón Páll í samtali við Vikudag. 

„Við viljum samt sýna samfélaginu hver ávinningurinn sé af því að nýta eins mikið af þeim kröftum sem eru hér til staðar og við getum. Enda erum við það heppinn að hér er mikið af frambærilegu sviðslistafólki. Hér er mikill uppgangur en núna vantar okkur bara innspýtingu frá hinu opinbera til að tryggja framtíðarstarfsemi.“

Jón Páll segir eitt af markmiðum Leikfélagsins sé að byggja upp atvinnustarfsemi í listum. Stefnan sé að fastráða fjóra leikara á næsta starfsári og allt að sex leikara þarnæsta ár. „En þetta þýðir auðvitað að við þurfum meira fjármagn.“

Samkomuhúsið upp til fyrri vegs

Á síðustu þremur árum hefur markvisst verið að unnið því að byggja upp starfsemina í Samkomuhúsinu. Búið er að endurnýja alls kyns tæknibúnað og skipta út húsgögnum. „Við fengum fjármagn til að hressa upp á húsnæðið og hefja Samkomhúsið upp til fyrri vegs. Húsið er algjörlega einstakt og verður alltaf þungamiðjan leiklistar á svæðinu,“ segir Jón Páll. 

Hjá Leikfélagi Akureyrar verða settar upp tvær gamanleiksýningar í Samkomuhúsinu í vetur. Annars vegar Kvenfólk þar sem Hundur í óskilum fer yfir kvennasöguna á hundavaði og hins vegar mun Sjeikfélag Akureyrar setja upp Sjeikspír eins og hann leggur sig. Auk þess snýr Stúfur aftur með jólasýningu í Samkomuhúsið í desember.

Nýjast