Heilsu- og sálfræðiþjónustan heldur málþing um áföll í starfi

Sigrún Heimisdóttir, framkvæmdastjóri og sálfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni
Sigrún Heimisdóttir, framkvæmdastjóri og sálfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

„Hvati okkar til að halda málþing sem þetta er margþættur. Það er stefna Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar að láta okkur samfélagsmál varða tengt lýðheilsu, hitta fólk, tala og vinna saman í þeim efnum,“ segir Sigrún Heimisdóttir, framkvæmdastjóri og sálfræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni sem efnir til málþings í næstu viku, föstudaginn 4. október um áföll í starfi. Það fer fram á Múlabergi, Hafnarstræti 89, Hótel KEA og hefst kl. 10.

Ingibjörg Ragna Malmquist sálfræðingur flytur erindi um um áföll, minningar og kveikjur, Katrín Ösp Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og MS í geðheilbrigðisvísindum fjallar um samkenndarþreytu og starfstengd áföll og Aðalsteinn Júlíusson lögreglufulltrúi fjallar um reynslu úr starfi sínu. Eftir hádegihlé flytur Dr. Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir og formaður félags heimlislækna, erindi um langtímaafleiðingar áfalla og streitu. Í lokin stjórnar Sigrún ásamt faghópi Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar, umræðum og hópavinnu með yfirskriftinni; Hver á að hjálpa mér?

„Það eru alvarlega merki um álag hjá ýmsum fagstéttum um þessar mundir og hluti af þeim vanda getur tengst óbeinni og beinni áfallareynslu í starfsumhverfi. Þetta er staðan í mörgum svipuðum samfélögum og mikilvægt að þekkja viðvörunarmerkin, hvað hægt er að gera til forvarna og til að bregðast við,“ segir Sigrún.

Hún bætir við að hjá Heilsu og sálfræðiþjónustunni sé sérhæfing í faghópnum þessu tengt sem mikilvægt sé að koma á framfæri og vekja fólk til umhugsunar um forvarnir og hvað sé til ráða. „Undanfarnar vikur hafa svo dunið á samfélaginu erfiðar fréttir sem hafa eðlilega áhrif á marga og þeir fagmenn sem standa á bak við fólk í þjáningu s.s. í áfallahjálp, félagsþjónustu og fleiri störfum eru í mikilli þörf fyrir stuðning,“ segir Sigrún. 

 

Nýjast