20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Heildarfjárfestingarþörf Norðurorku næstu fjögur ár er 6,8 milljarðar Gefur auga leið að næstu ár verða þung
Á 290. fundi stjórnar Norðurorku hf. samþykkti stjórn breytingar á gjaldskrá veitna félagsins sem taka munu gildi um næstu áramót.
Grunnur að breytingu á verðskrám Norðurorku hf. er tvíþættur. Annars vegar er ársreikningur liðins árs brotinn niður og vægi rekstrarkostnaðar tengdur vísitölum. Með þessu sjást áhrif vísitölubreytinga á rekstrarkostnað Norðurorku. Hins vegar er horft til verðbólguspár Seðlabanka Íslands fyrir komandi ár. Þessar vísitölur eru vegnar saman til helminga og gefa þannig vísitölu sem myndar grunn fjárhagsáætlunar næsta árs.
Verðskrá endurskoðuð ársfjórðungslega
Þessi aðferð hefur gefist vel í stöðugu efnahagsástandi og leitt til ásættanlegra breytinga á gjaldskrám. Hins vegar sýna gögn að á verðbólgutímum þeim sem verið hafa undanfarin ár hefur spá Seðlabankans verið talsvert langt undir því sem síðan raungerðist. Það hefur haft þær afleiðingar að vísitala sú sem Norðurorka notaði til grundvallar verðskrárbreytingum leiddi til breytinga sem ekki fylgdu verðlagi og munar talsvert miklu. En rétt er að hafa í huga að á síðasta ári ákvað stjórn að verðskrá skuli endurskoðuð ársfjórðungslega með það að markmiði að gjaldskrá fylgi verðlagsbreytinum og var því ákvæði fyrst beitt á þessu ári þegar gjaldskrá allra veitna var hækkuð um 4,9% 1. ágúst.
Því skal haldið til haga að breyting á gjaldskrá rafveitu er háð samþykki Orkustofnunar, breyting á gjaldskrá hitaveitu er send umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneyti til samþykktar og sveitarstjórnir viðkomandi sveitarfélaga staðfesta verðskrár vatnsveitu og fráveitu.
Vísitala Norðurorku liðna 12 mánuði er nú reiknuð 8,6% og verðbólguspá Seðlabankans fyrir 2024 er 4,6%. Þessar tölur, vegnar saman til helminga eru 6,6% sem myndar grunn fjárhagsáætlunar 2024. Gjaldskrá vatns- og fráveitu hækka sem nemur þeim grunni, um 6,6%.
Tekjur þriggja veitna af fjórum standa ekki undir fjárfestingum
Gjaldskrár hitveitu og rafveitu munu hins vegar hækka umfram grunnvísitölu fjárhagsáætlunar 2024. Það er mikilvægt að viðskiptavinir okkar hafi upplýsingar um ástæður þessa og þessi skrif eru viðleitni til þess að gera grein fyrir þeim.
Fyrst ber að horfa til þess að virðisrýrnunarpróf veitna Norðurorku 2022 leiddi það í ljós að einungis vatnsveitan stóðst prófið. Það þýðir, í mjög einfölduðu máli, að tekjur hita-, raf- og fráveitu standa ekki undir fjárfestingum þeirra veitna.
Annað sem taka þarf tillit til er það að rafveita er bundin svokölluðum tekjumörkum sem setur mörk um tekjuheimildir. Norðurorka hefur ekki nýtt þessi tekjumörk nægilega vel og hefur verið nokkuð langt undir þeim undanfarin ár. Getur það m.a. skýrt það að rafveitan stenst ekki virðisrýrnunarpróf. Af þeim sökum mun gjaldskrá rafveitu hækka um 10% um næstu áramót.
Notkun á heitu vatni hefur tvöfaldast á 20 árum
Hitaveitan hefur algjöra sérstöðu vegna þess að fjárfestingarþörf hitaveitunnar er gríðarlega þung. Fyrir liggur að notkun á heitu vatni á Akureyri hefur tvöfaldast á 20 árum en á sama tíma hefur íbúum á Akureyri fjölgað um 23%, samkvæmt mælaborði Byggðastofnunar. Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur staðið undir allri aukningu síðastliðin 20 ár og gert hefur verið ráð fyrir að svo myndi verða í 10 ár til viðbótar. Nú eru hins vegar blikur á lofti því komið hefur í ljós að svæðið getur ekki, að óbreyttu, afkastað meiru en það gerir í dag. Þar af leiðandi verður Norðurorka að flýta virkjun á jarðvarma eins og kostur er. Virkjun jarðhita er bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Leyfismál og framkvæmdatími tekur að lágmarki fjögur til fimm ár áður en það heita vatn fer að renna um lagnir viðskiptavina okkar.
Heildar fjarfestingarþörf Norðurorku næstu fjögur ár er 6,8 milljarðar. Af því eru 52% vegna hitaveitu. Það gefur auga leið að næstu ár verða þung, tekjur standa ekki undir svo umfangsmiklum fjárfestingum og Norðurorka þarf að fleyta sér yfir þennan skafl með lánsfé. Af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar hækkar hitaveita á Akureyri um 12%.
Fjármagnskostnaður hefur hækkað verulega
Einn þáttur er ótalinn sem hefur áhrif á fjárhaginn en það er fjármagnskostnaður. Hann hefur hækkað verulega hjá Norðurorku eins og hjá öðrum. Fjármagnsgjöld árið 2022 voru 626 milljónir og höfðu þá nánast tvöfaldast frá fyrra ári.
Rétt er að það komi fram að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 gerir stjórn ekki ráð fyrir arðgreiðslum til eigenda.
Ég vona að með þessari stuttu yfirferð hafi mér tekist að gera grein fyrir ástæðum gjaldskrárbreytinga Norðurorku sem ætlað er að taki gildi um næstu áramót.
Eyþór Björnsson
Forstjóri Norðurorku hf.