Hefur stoppað upp 400 kindahausa
„Þetta er ákveðinn áfangi,“ segir Kristján Stefánsson frá Gilhaga sem lengi hefur unnið við uppstoppun, en seint á síðastliðnu ári afhenti hann kindahaus númer 400 frá því hann hóf að stoppa upp. Hausinn fór á Sauðanes við Siglufjörð, var jólagjöf sem vakti lukku.
Kristján kennir sig við Gilhaga í Skagafirði þar sem hann er fæddur og uppalinn, en hann flutti til Akureyrar árið 2008 þar sem hann kom sér upp atvinnuhúsnæði sem hann kallar Hreiðrið. Þar sinnir hann uppstoppun sinni og hefur um tíðina haft í nógu að snúast. Mest hefur hann fengist við að stoppa upp dýr, kindahausa til að mynda og tófur hafa líka í áranna rás komið í töluverðum mæli sem og fugla.
Kristján segir að uppstoppunarferlið sé tímafrekt en „ég hef alltaf jafn gaman af þessu og er svo sem ekki með nein áform um að hætta,“ segir hann.
/MÞÞ