Háskólinn á Akureyri iðar af lífi

Stúdentar í fyrstu lotu í nýrri námsleið í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun.
Stúdentar í fyrstu lotu í nýrri námsleið í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun.

Það er alltaf mikið líf sem fylgir nýju skólaári, sama á hvaða skólastigi það er. Þar er Háskólinn á Akureyri engin undantekning. Gangarnir eru iðandi af stúdentum, starfsfólki og ýmislegt nýtt sem lítur dagsins ljós í góðu samstarfi eininga og annarra stofnana.

Fyrir skemmstu fór í fyrsta skipti á Íslandi af stað námskeiðið ReDo, sem stendur fyrir ReDesigning Daily Occupations. Námskeiðið er fyrir iðjuþjálfa og er á vegum Símenntunar Háskólans á Akureyri í samvinnu við Iðjuþjálfunarfræðideild skólans. ReDo námskeiðið er hópíhlutun sem byggir á iðjuþjálfunarfræði og er þróuð af Lena-Karin Erlandsson, prófessor í iðjuþjálfun við Halmstad Högskola í Svíþjóð.

Lena og Susanne Bohs, Msc. í iðjuþjálfun við Malmö Stad, komu til landsins og héldu þriggja daga staðnámskeið sem er svo fylgt eftir með fjartímum. Dr. Björg Þórðardóttir, kennari og rannsakandi við Oslo Met háskólann í Noregi og Háskólann á Akureyri, hafði áður þýtt handbókina fyrir námskeiðið á íslensku. „Næsta námskeið verður líklega kennt í fjarkennslu af því að þetta tókst svo vel og námskeiðshaldarar voru alsælir með íslenska iðjuþjálfa“ segir Björg eftir reynslu síðustu viku.

Á dögunum fór svo af stað ný námsleið í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun. Námsleiðin er dæmi um árangursríkt samstarf. Heilbrigðisráðuneytið leitaði til skólans með að leiða skipulagningu og undirbúning á námskrá fyrir námið sem er þverfræðilegt og kennt í samstarfi við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Undirbúningur hófst árið 2020, styrkur í verkefnið fékkst því næst úr samstarfssjóði Háskóla í febrúar 2024 og þá var hægt að fara í kennslu og framkvæmd.

Sú framkvæmd byrjaði í síðustu viku þegar fyrstu stúdentar mættu á svæðið og sátu fyrstu lotu námsins. Kristín Þórarinsdóttir, dósent við Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið skólans, sem leiddi vinnuhópinn við skipulagningu og undirbúning námsins segir: „Fagfólkið sem við munum útskrifa úr þessari nýju framhaldsnámsleið getur m.a. unnið hjá heilsugæslum, í minnismóttökum á Landakoti og á Sjúkrahúsinu á Akureyri, í heimahjúkrun, félagsþjónustu og á hjúkrunarheimilum.“

Öflugt samstarf líkt og birtist í þessu nýja námi er ekki sjálfgefið og þurfa allir hlutaðeigandi að leggja í það talsverða vinnu. Á sama tíma er samvinnan krafturinn sem leiðir til framþróunar ásamt auknu framboði og aðgengi fyrir samfélagið að námi. Háskólinn á Akureyri er í góðu samstarfi við ýmsa aðila samfélagsins og eru þetta tvö góð dæmi um það.


Athugasemdir

Nýjast